<$BlogRSDUrl$>

05 janúar 2006


Bleikar mussur - fyrsti kafli: Evróvisjónævintýrið

Nokkrum sinnum gegnum tíðina hef ég viðrað það álit mitt að það yrði Evróvisjónsöngvakeppninni til framdráttar að fá meira rokk í hana. Svo rammt kvað að þessu á haustdögum sem leið að ég ákvað að grípa til minna eigin ráða þegar tilkynnt var um forkeppnina fyrir árið 2006 og hóaði saman nokkrum vinum mínum og kunningjum, frá fornu fari og nýju, til að æfa og taka upp svona eins og eitt stykki entrans. Allir voru með aðra hluti á sinni könnu og tími var skorinn við nögl. Við komum saman þrisvar, kannski fjórum sinnum, part úr miðvikudagskvöldi (einu kvöldin sem allir voru lausir) og skelltum okkur svo í stúdíó sunnudaginn þrettánda nóvember. Það var byrjað að stilla upp um hádegisbilið og höfundurinn labbaði út með mix undir kvöldmat.

Ekki gekk eftir að við kæmumst inn í 24 laga hópinn. En þetta var gaman. Og sömuleiðis gaman að eiga afraksturinn í útgáfu sem hljómar satt að segja enn betur en sú sem var búin að sveima um í hausnum á mér í nokkur ár. Og fyrir vikið er núna hægt að leyfa öðrum að njóta útkomunnar.

Þetta var mikið einvalalið sem ég fékk með mér og smellpassaði í prósjektið. Allir hljómsveitarmeðlimir höfðu nóg að gera fyrir, en eitthvað er þó búið að rotta sig saman eftirá og ræða um að gaman gæti verið að gera eitthvað annað og meira síðar. Við sjáum til með það.

Nafnið á hljómsveitina er komið frá fyrrverandi trommuleikara hennar (sem þessa daga sýnir ánægjuleg merki um að rumska úr bloggdái).

Dömur mínar og herrar, ég býð ykkur: Bleikar mussur - Ég pant vera Ameríka. Þeim sem líst þannig á er frjálst að láta berast.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com