<$BlogRSDUrl$>

30 desember 2005


Úbbs, já, afsakaðu Magnús. Fiskurinn bragðaðist hrein ljómandi vel. Sérstaklega þótti gestunum skenntilegt að smakka skötuselinn, svona nett "karamellíseraðan" á annarri hliðinni eins og hann var.

Jólin voru með hefðbundnu sniði, utan það að foreldrar mínir voru í borginni yfir hátíðina og buðu afkomendunum í jólagraut í hádeginu á aðfangadag. Um kvöldið vorum við svo hjá tengdaforeldrunum.

Þar á bæ var haldið fast í hefðina að lesa kortin áður en gjafirnar væru opnaðar. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel undir því. Alveg hreint eins og hetjur.

Una var fljót að ná því út á hvað þetta gekk alltsaman og Hrefna hafði engu gleymt frá fyrri jólum. Þegar ofan á það bættist að frænka þeirra Árný var engu minna spennt að koma þessu frá öllusaman má ljóst vera að mikið gekk á um tíma. Mesta furða að ekki er nema ein gjöf eftir kvöldið sem við erum ekki aaalveg viss um hvaðan kom eða hverjum var gefin.

Stelpurnar héldu uppi fjörinu framanaf kvöldi en fullorðna fólkið gat farið að kíkja í sína eigin pakka þegar á leið. Í restina gekk Una hring eftir hring um tréð og þráspurði hvar allir hinir pakkarnir hennar væru. Hún tók því lygilega vel miðað við aldur og reynslu þegar hún frétti að þetta væri, öh, allt og sumt.

Hörðu pakkarnir innihéldu Moby Dick, Flugdrekahlauparann og heila dobíu af reyfurum, innlendum sem erlendum. Og enginn fór í jólaköttinn.

Það sem eftir var jóla: Hefðbundið fjölskylduboð á jóladag hjá bróður mínum. Grimm spilamennska þessutan. Rólegheit á þriðja. Jólaskautaball í Egilshöll í fyrrakvöld. Slagsmál á tölvuöld í gærkveldi. Jólaglögg hjá svilkonu minni í kvöld og áramótagleði á sama stað annað kvöld. Og svo brestur janúar á með fullum þunga á mánudaginn.

*()*

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com