<$BlogRSDUrl$>

14 október 2005


Og aftur dreymdi mig.

Það er friðsæll dalur sem ég kem stundum til í draumum mínum, grösugur með háum og í meðallagi vatnsmiklum fossi og mosavöxnum klettastöplum. Upp til vinstri er hrjóstrugur afdalur með klungri, hellaskútum og einhverjum aflögðum framkvæmdum af smærra taginu. Virkjun eða einhverju þess háttar. Einu sinni í draumi gekk ég þann afdal með móður minni. En niðri á graslendinu við fossinn dvelst ég alltaf einn, einhverra hluta vegna.

Þegar ég hugsa út í það - það er orðið nokkuð langt síðan ég komst í dalverpið síðast. Þau skipti sem ég man að mig hefur dreymt þennan dal að undanförnu hef ég alltaf verið á leiðinni þangað, að villast einn í bílnum.

Maður þarf að sjálfsögðu að ganga síðasta spölinn.

Í nótt sem leið dreymdi mig að ég væri á leiðinni með fjölskylduna í fyrsta skipti, með konu mína og dætur. Við vorum ekki nema rétt lögð af stað frá bílnum þegar stelpurnar fóru að hoppípolla í engum stígvélum og urðu allar svo rennblautar að við urðum að snúa við aftur.

Þannig fór það. Stelpurnar virtust samt hafa gaman af ferðalaginu. Bara verst að þær skyldu ekki geta séð paradísina. Ég hlakkaði svo til að leyfa frúnni að sjá hana.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com