<$BlogRSDUrl$>

11 október 2005


Haustið fyrir tólf árum (1993) var ég ungur og vitlaus og vissi ekki hver framtíð mín yrði eftir næstu helgi, eins og skáldið orti. Eins og næg væri ekki vitleysan, þá þvældist ég út til Dyflinnar fyrstu helgina í september og skellti mér á U2-tónleika með tveimur vinum mínum. Tónleikarnir voru góðir og dvölin að öðru leyti væn; við dvöldum þar við búðaráp, pöbbarölt og kojufyllerí.

(Hér hleyp ég meðal annars yfir söguna af því þegar við hittum Bono á reykmettaðri öngstrætisknæpu sem ég er nú búinn að gleyma hvað hét.)

Ég keypti mér bók þarna úti, bók eftir heimahöfund: The Book of Evidence eftir John Banville. Hún er tvímælalaust í flokki betri bóka sem ég hef lesið; miskunnarlaus karakterstúdía á meingölluðum en þó geðþekkum ístöðuleysingja sem fremur voðaverk án þess að hafa á því nokkra minnstu réttlætingu eða neitt sér til málsbóta. Hún var tilnefnd til Booker-verðlaunanna árið 1989 en tapaði fyrir Dreggjum dagsins eftir Kazuo Ishiguro.

Þá bók hef ég aldrei lesið. En myndin var ágæt.

Mig langaði í meira eftir þennan höfund, John Banville, og tókst að snapa mér tvær bækur í viðbót eftir hann, Mefisto og Ghosts, sem mynduðu laustengda tetralógíu með þeirri fyrstu (það vill segja, hún var sú fyrsta sem ég las - Mefisto kom að vísu út á undan, en það er sama hvor er lesin fyrst; í Ghosts fléttast síðan saman þræðir úr hinum bókunum tveimur) og bókinni Athena, sem ég hef ekki lesið.

Nokkru síðar kom út eftir hann sögulega skáldsagan The Untouchable, mikil ágætisbók um Cambridge-njósnarana, sögð frá sjónarhóli Sir Anthony Blunt, umsjónarmanns listaverkasafns Bretlandsdrottningar.

Síðan hef ég ekkert fylgst með honum, þar til nú í morgun að ég sá mér til ánægju að hann var að vinna Booker-verðlaunin fyrir nýjustu bók sína, The Sea. Tvöföld ánægja er að hann skyldi nú hafa betur en Ishiguro og hefna þar með ófaranna frá 1989.

Söguþráðurinn virðist ekki yfirmáta frumlegur við fyrstu sýn, um "mann sem horfist í augu við fortíðina í bænum þar sem hann ólst upp," samkvæmt Moggavefnum. En svo virðist sem alltaf megi finna nýja fleti á klisjunum. Enn er von.

Sennilega verður maður bara að lesa hana.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com