<$BlogRSDUrl$>

02 september 2005


Lífið er fallegt þessa dagana. Frúin kom heim í gær, eftir að hafa verið strandaglópur í Kaupinhöfn í einn sólarhring. Daginn þar áður fórum við feðgin í í heimsókn til stórabró. Stelpurnar léku við frænku sína og ég hjálpaði foreldrunum við að skipuleggja komandi óvissuferð sem þau halda utanum. Þurfti við það að taka á honum stóra mínum og rifja upp alla mína takmörkuðu kunnáttu frá háskólanámi mínu í grasafræði, og frá því er ég var þjálfari Ungmennasambands Austur-Húnvetninga í plöntugreiningu fyrir Landsmótið á Húsavík sumarið 1987.

Þetta var ljúft. Við ættum að gera meira af því að koma saman.

Skemmtilegt spor í þá átt verður einmitt á morgun, þegar bróðurdóttir mín kemur og gistir hjá okkur, einmitt vegna téðrar óvissuferðar. Svo verður kaffi fyrir alla á sunnudeginum.

Það hrynja annars yfir mig listahugmyndirnar: Topp tíu obskúru hljómsveitirnar, topp fimm uppáhaldsljóðin, topp fimm raunveruleikasjónvarpsþættirnir... nei anskotinn hafiða. Þar dreg ég þó mörkin. Enda löngu hættur að horfa á raunveruleikasjónvarp - einn daginn nennti ég ekki lengur að láta það fara í taugarnar á mér.

Ég hefði aldrei átt að byrja á þessari vitleysu. Ég veit ekki alveg hvort ég á þar við listana eða raunveruleikann.

Það stefnir annars í að fimmtudagskvöldin fari skánandi sem sjónvarpskvöld ef eitthvað er. Fínt að taka frá eitt kvöld í viku til að horfa á sjónvarpið. Jón Þórjón og félagar eru kannski ekki alveg jafn beittir og forðum en þó alltaf áhorfanlegir. Svo er alltaf hægt að vona að eitthvað skárra komi í staðinn fyrir Sporlaust-þættina. Og mér líst rétt rúmlega sæmilega á þáttinn sem byrjaði í gærkveldi á Skjá Einum, um doktor Hús og hans teymi. Hægt að dvelja sér við hann.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com