<$BlogRSDUrl$>

08 september 2005


Ég ætla ekki að tjá mig neitt að ráði um grand exit Davíðs Oddssonar af sviði íslenskra stjórnmála. Ekki í dag. Kannski ég muni rifja upp þau ummæli hans sem eru mér minnisstæðust daginn sem hann flytur sig yfir í Seðlabankann. Kannski seinna, og kannski hreint ekki neitt.

Nei, ég ætla ekki að tala um daginn í gær á grundvelli íslenskra stjórnmála. Ég ætla að tala um minn eigin dag. Árný og stelpurnar sóttu mig í vinnuna um fimmleytið, frúin fór svo að vinna en við feðginin fórum ofan í Laugardal að gefa öndunum og gæsunum brauð. Una var óð og uppvæg út um allt, fékk hjá mér hverja brauðskorpuna á fætur annarri og otaði þeim af slíku offorsi framan í gæsirnar að þær áttu stundum fótum fjör að launa undan henni. Á meðan stóð Hrefna uppi á bekk og lá ekki á þeirri skoðun sinni að hún væri hrædd við mávana. Og reyndar gæsirnar líka. Samt fékkst hún til að fleygja stöku skorpu, og mannaðist ögn eftir því sem á leið.

Eftir stutt stopp heimavið var haldið í grill til tengdaforeldranna. Svo var haldið heim á ný, stelpurnar settar í rúmið og svo var ég kominn upp í rúm sjálfur stuttu upp úr klukkan níu.

Eftirminnilegasta stundin frá gærdeginum var rétt eftir að ég var sestur upp í bílinn þegar þær komu að ná í mig og frúin færði mér þær fréttir að í matarboðinu hjá tengdaforeldrunum skyldi grilla hrefnukjöt. Ég stóðst ekki mátið, sneri mér við í sætinu og sagði við eldri dóttur mína:

"Nei heyrirðu það Hrefna! Við erum að fara að borða hreeefnukjöööt!"

Svo sá ég smám saman hvernig augun í dóttur minni stækkuðu, svo lengdist á andlitinu öllu, og loks fóru augun á flot um leið og dóttir mín orgaði út um heljarstóra skeifu:

"Ég vil ekki láta éta mig!"

Það tók okkur foreldrana heljarlangan tíma að leiðrétta þennan leiða misskilning við dóttur okkar, eftir að fór að verða viðræðuhæft á ný fyrir orgum og okkur hafði tekist að gera okkur ásættanlega alvarleg í framan. Þó rifjaðist að lokum upp fyrir henni það sem við vorum búin að segja henni áður: að það væri til hvalur sem héti hrefna, og því ætti að grilla hvalkjöt í kvöldmatinn, ekki barnakjöt.

Hvað heldur dóttir okkar hjóna eiginlega um okkur? Heldur hún virkilega að við værum svo vondir foreldrar að deila því með henni fyrirfram ef við ætluðum að hafa hana í kvöldmatinn?

Voðalegt er þetta.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com