<$BlogRSDUrl$>

07 september 2005


Ég hef í tvígang á síðasta sólarhringnum fengið þá skelfilegu tilfinningu, eitt ofurlítið sekúndubrot, að ég hafi framið stærstu afglöp starfsferils míns. Í bæði skipti rjátlaðist það af mér: í öðru tilvikinu reyndist misskilningurinn smávægilegur og auðveldur viðfangs þegar til kom, og í hinu tilvikinu kom meir að segja upp úr dúrnum að ég hafði réttara fyrir mér en mér klárari og háttsettari aðiljar, þegar allt kom til alls.

Mikil blessun er það að hafa yfirmenn sem finnst gaman að sjá að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Vitaskuld ekki eins gaman og þegar þeir geta sýnt fram á að þeir hafi haft rétt fyrir sér - það eru jú takmörk. En mér varð hugsað til þess hvað mér er vænt um heimssýn þess sem skiptir fúslega um skoðun þegar hann sér ástæðu til: Maður sem vill skilja ástæður þess að honum skjátlaðist áður mjakast með því skref fyrir skref í átt að betri skilningi á heiminum.

Þetta tengist því sem mér finnst svo oft fara fyrir ofan garð og neðan: Vísindunum er ætlað að afla þekkingar, ekki útbreiða viðurkenndan sannleika. Vísindunum er ekki ætlað að gefa okkur fullkomna og sanna mynd af heiminum. Þvert á móti: Vísindin vita ekki Sannleikann. Þeim er það ekki ætlað. Þetta er nokkuð sem ég held að býsna margir geri sér ekki grein fyrir.

Heimsmynd vísindanna byggir á þeirri frumforsendu að heimsmynd vísindanna á hverjum tímapunkti sé röng!

Við smíðum okkur líkön að heiminum, byggð á þeim staðreyndum sem við getum aflað okkur og sýnt fram á. Við vitum að líkan af heiminum gefur okkur einfaldaða mynd af honum, mynd sem við getum skilið og tekið góða og gilda, ef við setjum okkur inn í þau gögn sem liggja fyrir og samþykkjum þær forsendur sem liggja að baki líkaninu. En líkanið er ekki heimurinn.

Einhver mesta gleði sem ég held að vísindamaður geti fundið fyrir er sú sem fylgir þeirri uppgötvun að hann hafi haft rangt fyrir sér - að heimurinn hafi ekki verið eins og hann ætlaði. Þá hefur honum tekist að bæta skerpuna á mynd sinni af heiminum.

En nú er ég kominn býsna langt frá upphafinu: hvunndagslegum uppgötvunum á ofurlitlum smáatriðum sem hefðu mátt fara betur, og sem greitt var úr. Það voru nú öll ósköpin.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com