<$BlogRSDUrl$>

16 september 2005


Fimm staðreyndir um sjálfan mig:

1) Það sem ég trúi: Þeim manni sem kemur fram af heiðarleik og sanngirni við samferðafólk sitt er umbunað fyrir vikið. Ekki í einhverju handanlífi eftir dauðann, heldur í þessu lífi hérna.

2) Uppáhaldsljóðið mitt heitir Lífstréð, og er sonnetta eftir Kristján frá Djúpalæk. Ég er með það niðurskrifað á gulum post-it miðum sem eru límdir á fótinn á tölvuskjánum mínum í vinnunni.

3) Það var mér mikil opinberun á sínum tíma þegar ég áttaði mig á því að maðurinn er ekki það sem hann hugsar, heldur það sem hann gerir. Að gera mér grein fyrir því er stærsta einstaka skrefið sem ég hef nokkrusinni stigið í átt til þess að vera sáttur við sjálfan mig (sem gleður mig að tilkynna að ég er, svona heilt yfir).

4) Ég læt mig dreyma um að taka þátt í Evróvisjón. Er með lagið tilbúið og allt, vantar bara hljómsveit, æfingahúsnæði og upptökuvesen. Eru einhverjir memm?

5) Ég hatast við pýramídaskemu og allt það sem ber svip af keðjubréfahegðun. Sem er ástæða þess að ég ætla ekki að skipa fimm öðrum bloggurum að þylja upp fimm staðreyndir um sjálfan sig. Í staðinn verður Ljúfa að gjöra svo vel og setja saman tvo lista, hvorn um sig í a.m.k. fimm liðum, þar sem á öðrum eru hlutir sem hún heldur upp á þótt enginn annar geri það, og á hinum er það akkúrat öfugt. Hún má skora á einhvern annan til að gera það sama ef hana langar þegar hún er búin. En hún þarf þess ekki.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com