<$BlogRSDUrl$>

23 september 2005


Það eru margar fallegar styttur í Reykjavík.

Í fyrrasumar (og sumarið þar áður) fengum við hjónin í heimsókn vinafólk okkar að utan, par sem á heima skammt frá Manchester, Englandi. Við gerðum sitthvað til að hafa ofan af fyrir þeim, eins og gengur, en þess fyrir utan gengu þau mikiðtil sjálfala, leigðu sér bíl og óku út á land, tóku strætó oní bæ og vöfruðu um miðborgina.

Þau höfðu ýmislegt að segja um miðborg Reykjavíkur, og mest af því mjög fallegt. Þau voru ekki hvað síst hrifin af því hvað það væri einmitt mikið af styttum í Reykjavík, og þá fallegum styttum, listaverkum, skúlptúrum. Artwork. Ekki einhverjum þurrkuntulegum styttum af dauðum þjóðarleiðtogum og brjóstmyndum af merkismönnum sögunnar.

Þau voru, satt best að segja, guðslifandi fegin að sleppa við að þurfa að horfa upp á of mikið af slíkum dómadags hryllingi.

Þessi orð þeirra rifjuðust upp fyrir okkur hjónum nú í morgun, í kjölfar þess hvusslags styttu væri nú best að bæta í safnið. Við eigum bæði okkar uppáhaldsstyttur í miðbænum. Hennar er engillinn fríði hjá Landakoti. Mín er óþekkta skrifstofublókin sem leynist í bakporti við Lækjargötuna.

Og við vorum sammála um að það sé hreinn óþarfi að bæta oná dönsku kóngana, Nonna Sig og stuttfættan og hanasperrtan Óla Thors (sem ég krýni hérmeð ljótustu styttu Íslands, og þótt víðar væri leitað). Reykjavík þarfnast ekki styttu af frakkaklæddum Tómasi. Hún þarfnast heldur ekki neitt sérstaklega styttu af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Auði Auðuns eða Vigdísi Finnbogadóttur, ef út í það er farið.

Kannski af fjallkonunni, ég held því opnu.

(og þá helst þeirri nútíma-fjallkonu sem Kristian Guttesen segir frá í einni af sögum sínum: útivinnandi einstæðri móður sem gengur í erlendri merkjavöru, borðar pizzur og kínverskan í hvert mál og skilur börnin sem erfa skulu landið eftir í umsjá vandalausra meðan hún þrælar sér út í vafasamri næturvinnu)

En ef það á að bæta við fleiri skúlptúrum í miðbæinn, þá finnst mér bæði hvunnlags og eftir hvern vera mikilvægari spurningar heldur en hverjum/hverri til minningar.

Ekki það að ég hafi neitt á móti Tómasi.

Eða konum.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com