<$BlogRSDUrl$>

27 september 2005


Æ, ekki gekk spádómurinn eftir. Og fer þá sirkushljómsveitin væntanlega að telja inn í útgöngulagið.

Ég mun seint teljast með mestu hatursmönnum Baugsmafíunnar. Og enn síðar með gröðustu attaníossum ónefnds guðföður Sjálfstæðismafíunnar. Auk þess er Fréttablaðið í hópi þeirra fréttamiðla sem ég tek meira mark á en minna í því pólitíska og viðskiptalega landslagi sem landinn ráfar vankaður um þessa dagana (svo lengi sem maður man að velja sér gleraugun eftir lesefninu). Því kem ég sjálfum mér dálítið á óvart núna, þegar farið er að hægjast um eftir moldviðri helgarinnar, þar sem mér sýnist sem nýjustu tillegg Fréttablaðsins séu hvorki Baugsmálarekstrinum né samsæriskenningum um pólitískar rætur til framdráttar.

Hvað stendur eftir?

Það sem við fyrstu sýn leit jafnvel út eins og argasta samsæri í innsta hring Sjálfstæðisflokksins virðist í dag lítið meira en persónuleg krossferð sprottin af óvild tveggja einstaklinga sem töldu sig eiga harma að hefna við Baugsveldið (enn er útistandandi hvort sú óvild sé sprottin af nokkurs lags brotum sem hægt er eða réttvíst að sækja til saka fyrir dómstólum). Baugsmiðlarnir hafa meir að segja dregið tennurnar úr sjálfum sér með því að bjóða upp á þá túlkun að greiðasemi Morgunblaðsritstjórans við tvímenningana hafi verið persónuleg (og þá persónulegri en maður kærir sig um að vita), en ekki pólitísk eða sprottin af blindri leiðtogahollustu.

Beggja vegna borðs er margt enn á huldu og óvíst hvort línur eigi nokkru sinni eftir að skýrast. Hversu fyndið er að tala um fingraför Morgunblaðsins? Að eitthvað sé innmúrað og innvígt? Hvað þýðir það? Hverjir voru eða voru ekki tilbúnir að borga hverjum meira? Meira en hvað (varla þó þrjúhundruð milljónir)? Og gegn hvaða greiðasemi? Afhverju þetta offors Ríkislögreglustjóra, borið saman við silkihanskatökin sem farið var um olíudrullusokkana?

Það er vel líklegt að pöpullinn eigi aldrei eftir að fá neinslags svör við neinum þessara spurninga.

Það eina sem er nokkuð ljóst (og var það kannski fyrir) er að einn hæstaréttardómara mun augljóslega vera vanhæfur til að annast Baugsmál þegar þau koma þangað. Og þarf ekki að fjargviðrast yfir því, enda hefur það ekkert að gera með það hversu lögspakur sá maður er að öðru leyti. Hann er bara of tengdur þessu afmarkaða máli til að geta haft nokkuð um það að segja.

Að lokum þetta: Jafnvel þótt við tökum sem gefið að ónefndi maðurinn sé sá sem liggur í augum uppi, þá er eftir sem áður ekkert sem tengir hann beint við málið, ekkert sem hægt er að gera annað en gaspra almennt um andrúmsloft og innra múrverk.

Ja fyrir utan náttúrulega bolludagsbombuna sjálfa, og þau ummæli hans sem mér finnst hvað minnisstæðust frá öllum hans ferli og hann lét falla í sjónvarpsviðtali seinna í þeirri sömu viku: að sér hefði verið kennt sem ungum stjórnmálamanni að maður ætti að velja sér lygina vandlega, og halda sig svo við hana hvað sem á dyndi.

Og þykja mér það eftirmæli við hæfi, í tilefni dagsins.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com