<$BlogRSDUrl$>

30 september 2005


Nokkrir handahófskenndir punktar í vikulokin.

---

Leit við í Þjóðarbókhlöðunni á leið heim í gærkveldi og rakst á Gneistann á efstu hæðinni. Átti skemmtilegt spjall við hann þar sem í tal bárust Bent og 7berg, Uri Geller, William Shakespeare, tilraunir sem gerðar voru til að ganga úr skugga um sannleiksgildi Torino-klæðisins með því að negla mannslík á krossa og gildi mynda John Waters fyrir áróðursdeild bandaríska flughersins.

Alltaf gaman að tala við Gneistann.

---

Þetta er dáldið spennandi. Og mér sýnist líka á öllu að maður verði að sjá myndina þegar þar að kemur.

---

Sem stendur er ég með þennan ágæta njúmetaldisk í láni frá síðhærðum mági mínum. Þetta er náttúrulega óforbetranleg verksmiðjuframleiðsla og heimsvaldakapítalismi. En hann lætur ágætlega í eyrum; fínasta ryksugumúsík.

Ég dissaði Njú-metal full-ótæpilega um daginn - það eru til þær hljómsveitir sem hlustandi er á. Ég á tildæmis enn eftir að heyra það sem mér finnst óþolandi leiðinlegt lag með Deftones. Það gerist kannski þegar síðhærði mágurinn verður búinn að brenna mér og afhenda sérvalið greitest hitts úrval með þeim.

---

Uppúr brunarústum fjallabaksleiðarinnar reis skemmtilegasta ljóðasíða íslenska internetsins í dag. Wezzzzææd.
by Hr. Pez

28 september 2005


Ég hef lengi verið hrifinn af innri þversögnum. Og líka... hverju? Innri langsögnum? Því sem er í fullkomnu (og oft írónísku) samræmi við sjálft sig.

Dæmi 1:

"The argument that there exists a difference between the sexes is a typical male view."

Þessi tilvitnun var hér í hausnum á síðunni um tíma, að mér skildist höfð upp úr grein í þessu afar sænska tímariti. Mér sýnist sem eitthvað hafi skolast til í þýðingunni ef ég náði að hnusa uppi orgínalinn. Hún er sennilega höfð eftir karlmanni, sem gerir hana að dæmi um hið síðara. Ég hélt fyrst að hún væri höfð eftir kvenmanni, en hvorttveggja er fyndið.

Dæmi 2:

"This notion about each creature viewing the world differently from all other creatures -- not everyone would agree with me..."

Þetta er orðrétt uppúr skáldinu og hugsuðinum Philip K. Dick, ritað í tengslum við söguna Roog, um hund sem verður fyrir þeirri trámatísku reynslu á hverjum föstudagsmorgni að öskukarlarnir koma og ræna öllu úr öskutunnunni sem hann hefur varið af skyldurækni alla vikuna.

Það hlægir mig að hugsa til rökræðna PKD við ritstjórann sem hann talar um:

Ritstj: Ruslakarlar eru ekkert svona.
PKD: Jáen, það finnst hundinum skilurðu - hver skepna sér heiminn ólíkum augum við þá næstu.
Ritstj: Nei. Það er ekki satt.
PKD: Júsko, ekki nóg með það; ég og þú tildæmis, við erum ólík, við tvö erum ekki einusinni sammála um það hvernig heimurinn lítur út.
Ritstj: Jú. Við erum það víst.
PKD: (Felur andlitið í gaupni sér)

Dæmi 3:

Fyrri sagan af þessum tveimur er skemmtilegasta dæmi um ofangreint sem ég hef séð í háa herrans tíð. Ég veit ekki einu sinni hvort þetta er - mér allt sýnist hringsnúast, stólar og borð, þegar ég reyni að botna í því.

Öllu þessu allsendis óskylt, þá vil ég óska Fríðu systur hjartanlega til hamingju með daginn.
by Hr. Pez

27 september 2005


Æ, ekki gekk spádómurinn eftir. Og fer þá sirkushljómsveitin væntanlega að telja inn í útgöngulagið.

Ég mun seint teljast með mestu hatursmönnum Baugsmafíunnar. Og enn síðar með gröðustu attaníossum ónefnds guðföður Sjálfstæðismafíunnar. Auk þess er Fréttablaðið í hópi þeirra fréttamiðla sem ég tek meira mark á en minna í því pólitíska og viðskiptalega landslagi sem landinn ráfar vankaður um þessa dagana (svo lengi sem maður man að velja sér gleraugun eftir lesefninu). Því kem ég sjálfum mér dálítið á óvart núna, þegar farið er að hægjast um eftir moldviðri helgarinnar, þar sem mér sýnist sem nýjustu tillegg Fréttablaðsins séu hvorki Baugsmálarekstrinum né samsæriskenningum um pólitískar rætur til framdráttar.

Hvað stendur eftir?

Það sem við fyrstu sýn leit jafnvel út eins og argasta samsæri í innsta hring Sjálfstæðisflokksins virðist í dag lítið meira en persónuleg krossferð sprottin af óvild tveggja einstaklinga sem töldu sig eiga harma að hefna við Baugsveldið (enn er útistandandi hvort sú óvild sé sprottin af nokkurs lags brotum sem hægt er eða réttvíst að sækja til saka fyrir dómstólum). Baugsmiðlarnir hafa meir að segja dregið tennurnar úr sjálfum sér með því að bjóða upp á þá túlkun að greiðasemi Morgunblaðsritstjórans við tvímenningana hafi verið persónuleg (og þá persónulegri en maður kærir sig um að vita), en ekki pólitísk eða sprottin af blindri leiðtogahollustu.

Beggja vegna borðs er margt enn á huldu og óvíst hvort línur eigi nokkru sinni eftir að skýrast. Hversu fyndið er að tala um fingraför Morgunblaðsins? Að eitthvað sé innmúrað og innvígt? Hvað þýðir það? Hverjir voru eða voru ekki tilbúnir að borga hverjum meira? Meira en hvað (varla þó þrjúhundruð milljónir)? Og gegn hvaða greiðasemi? Afhverju þetta offors Ríkislögreglustjóra, borið saman við silkihanskatökin sem farið var um olíudrullusokkana?

Það er vel líklegt að pöpullinn eigi aldrei eftir að fá neinslags svör við neinum þessara spurninga.

Það eina sem er nokkuð ljóst (og var það kannski fyrir) er að einn hæstaréttardómara mun augljóslega vera vanhæfur til að annast Baugsmál þegar þau koma þangað. Og þarf ekki að fjargviðrast yfir því, enda hefur það ekkert að gera með það hversu lögspakur sá maður er að öðru leyti. Hann er bara of tengdur þessu afmarkaða máli til að geta haft nokkuð um það að segja.

Að lokum þetta: Jafnvel þótt við tökum sem gefið að ónefndi maðurinn sé sá sem liggur í augum uppi, þá er eftir sem áður ekkert sem tengir hann beint við málið, ekkert sem hægt er að gera annað en gaspra almennt um andrúmsloft og innra múrverk.

Ja fyrir utan náttúrulega bolludagsbombuna sjálfa, og þau ummæli hans sem mér finnst hvað minnisstæðust frá öllum hans ferli og hann lét falla í sjónvarpsviðtali seinna í þeirri sömu viku: að sér hefði verið kennt sem ungum stjórnmálamanni að maður ætti að velja sér lygina vandlega, og halda sig svo við hana hvað sem á dyndi.

Og þykja mér það eftirmæli við hæfi, í tilefni dagsins.
by Hr. Pez

26 september 2005


Ég hefði ekki átt að drekka þennan síðasta kaffibolla.

Að sjálfsögðu fylgist ég glaður með nýjustu bombum í Baugsmálinu, eins og aðrir. Það er alltaf gaman þegar nóg er að gerast.

Ég hef sjálfur mínar kenningar og bíð spenntur eftir Fréttablaði fyrramálsins. Þau hljóta að færa pöpulnum eitthvað krassandi í tilefni af því að á morgun fer Davíð Oddsson á eftirlaun eftir farsælan og flekklausan stjórnmálaferil.

Annað væri nú bara lélegur sjóbissniss.

Hérna, á einhver tyggjó?
by Hr. Pez

23 september 2005


Það eru margar fallegar styttur í Reykjavík.

Í fyrrasumar (og sumarið þar áður) fengum við hjónin í heimsókn vinafólk okkar að utan, par sem á heima skammt frá Manchester, Englandi. Við gerðum sitthvað til að hafa ofan af fyrir þeim, eins og gengur, en þess fyrir utan gengu þau mikiðtil sjálfala, leigðu sér bíl og óku út á land, tóku strætó oní bæ og vöfruðu um miðborgina.

Þau höfðu ýmislegt að segja um miðborg Reykjavíkur, og mest af því mjög fallegt. Þau voru ekki hvað síst hrifin af því hvað það væri einmitt mikið af styttum í Reykjavík, og þá fallegum styttum, listaverkum, skúlptúrum. Artwork. Ekki einhverjum þurrkuntulegum styttum af dauðum þjóðarleiðtogum og brjóstmyndum af merkismönnum sögunnar.

Þau voru, satt best að segja, guðslifandi fegin að sleppa við að þurfa að horfa upp á of mikið af slíkum dómadags hryllingi.

Þessi orð þeirra rifjuðust upp fyrir okkur hjónum nú í morgun, í kjölfar þess hvusslags styttu væri nú best að bæta í safnið. Við eigum bæði okkar uppáhaldsstyttur í miðbænum. Hennar er engillinn fríði hjá Landakoti. Mín er óþekkta skrifstofublókin sem leynist í bakporti við Lækjargötuna.

Og við vorum sammála um að það sé hreinn óþarfi að bæta oná dönsku kóngana, Nonna Sig og stuttfættan og hanasperrtan Óla Thors (sem ég krýni hérmeð ljótustu styttu Íslands, og þótt víðar væri leitað). Reykjavík þarfnast ekki styttu af frakkaklæddum Tómasi. Hún þarfnast heldur ekki neitt sérstaklega styttu af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Auði Auðuns eða Vigdísi Finnbogadóttur, ef út í það er farið.

Kannski af fjallkonunni, ég held því opnu.

(og þá helst þeirri nútíma-fjallkonu sem Kristian Guttesen segir frá í einni af sögum sínum: útivinnandi einstæðri móður sem gengur í erlendri merkjavöru, borðar pizzur og kínverskan í hvert mál og skilur börnin sem erfa skulu landið eftir í umsjá vandalausra meðan hún þrælar sér út í vafasamri næturvinnu)

En ef það á að bæta við fleiri skúlptúrum í miðbæinn, þá finnst mér bæði hvunnlags og eftir hvern vera mikilvægari spurningar heldur en hverjum/hverri til minningar.

Ekki það að ég hafi neitt á móti Tómasi.

Eða konum.
by Hr. Pez

22 september 2005


Ég ætla ekki að blogga neitt af viti um daginn í dag.

Og því síður um nóttina. Púff nei. Því held ég sko bara fyrir sjálfan mig.
by Hr. Pez

21 september 2005


Í dag bar helst til tíðinda að ég fór út að borða með Magnúsi í hádeginu.

Ég mæli með humarsúpunni á Sægreifanum. Hiklaust.
by Hr. Pez

19 september 2005


Sú eldri varð fimm ára um helgina. Veislan dró dilk á eftir sér - það hefur einhver mætt í hana í minna en toppformi. Við feðginin skiptumst sumsé öll þrjú á um að nota skúringafötuna frá miðnætti í nótt og framundir morgun. Frúin kom svo hlaupandi heim úr vinnunni með það sama upp úr hádeginu.

Hún hitti í morgun föður tvíburanna á næstu hæð fyrir neðan; þeim var boðið í veisluna á laugardaginn. Þær héldu einmitt öllum í þeirri íbúð á fótum í alla nótt líka. Spurning hvort svo hafi verið á fleiri heimilum.

Gaman að þessu. Liddl.
by Hr. Pez

16 september 2005


Fimm staðreyndir um sjálfan mig:

1) Það sem ég trúi: Þeim manni sem kemur fram af heiðarleik og sanngirni við samferðafólk sitt er umbunað fyrir vikið. Ekki í einhverju handanlífi eftir dauðann, heldur í þessu lífi hérna.

2) Uppáhaldsljóðið mitt heitir Lífstréð, og er sonnetta eftir Kristján frá Djúpalæk. Ég er með það niðurskrifað á gulum post-it miðum sem eru límdir á fótinn á tölvuskjánum mínum í vinnunni.

3) Það var mér mikil opinberun á sínum tíma þegar ég áttaði mig á því að maðurinn er ekki það sem hann hugsar, heldur það sem hann gerir. Að gera mér grein fyrir því er stærsta einstaka skrefið sem ég hef nokkrusinni stigið í átt til þess að vera sáttur við sjálfan mig (sem gleður mig að tilkynna að ég er, svona heilt yfir).

4) Ég læt mig dreyma um að taka þátt í Evróvisjón. Er með lagið tilbúið og allt, vantar bara hljómsveit, æfingahúsnæði og upptökuvesen. Eru einhverjir memm?

5) Ég hatast við pýramídaskemu og allt það sem ber svip af keðjubréfahegðun. Sem er ástæða þess að ég ætla ekki að skipa fimm öðrum bloggurum að þylja upp fimm staðreyndir um sjálfan sig. Í staðinn verður Ljúfa að gjöra svo vel og setja saman tvo lista, hvorn um sig í a.m.k. fimm liðum, þar sem á öðrum eru hlutir sem hún heldur upp á þótt enginn annar geri það, og á hinum er það akkúrat öfugt. Hún má skora á einhvern annan til að gera það sama ef hana langar þegar hún er búin. En hún þarf þess ekki.
by Hr. Pez

15 september 2005


Ég heillaðist af ljóðamaskínu sem hlekkt var á frá skáldi á Ísafirði. Ég renndi í gegnum hana nokkrum póstfars-titlum sem mér hafa borist nýlega. Það leynist fegurð í póstfarsi sem ekki allir gera sér grein fyrir:

lose the tummy Milagros


The Sirens by Milagros. ... traces the
outline of her panties and Kassandra’s stomach
trembles as ... her body jerks violently, but our hands never lose
their focus. ...
-
... Parents: Anilu and Juan Names: Milagros
Unnamed_Angels: ... than for the
short time you
were in Mommy's tummy. ... so lonely and terrified that i might lose
this baby ...
-
Nine-month-old Milagros
Cerron -- her name means miracles in Spanish -- is one
of only ... During a normal tummy
tuck, the
skin is pulled down like a shade, ...
-
... "¡Muchos cren en milagros, pero tu necesitarás más que eso!". ... "It's not whether I
win or lose, just as long as I piss you off! ... It's good for my tummy!" ...
-
It was an "emotional roller coaster," said Dr. Milagros
Santiago, a pediatrician
... He is 21 1/4 inches long and has a tummy
girth of a robust 15 inches. ...
-
"I did lose
my hair and had a cute little wig. ... Milagros
Chemotherapy "When
I started having chemotherapy, well, they explained everything to me and I ...
-
"I did lose
my hair and had a cute little wig. ... Milagros
Surgical Choices "And
when I for the
second opinion the
doctor explained it was more clear, ...
-
... winner and a pure serve and volleyers lose
to a ... Drake, Marie-Ève Pelletier, Stephanie
Dubois, Milagros
Sequera ATP ... fairly old, had a bit of a tummy
(not really ...
-
-
collect them like milagros
we pin. to statues of saints ... lose, and while this
wouldn’t always be the
case, it certainly was then, and the
newness of ...

... The milagros. ... That I will not be able to feed my kids, that I will lose
our home ... son,
you'll do more summerSaúlts with beans in your tummy; they add buoyancy ...
-
lose such powerful ships. The Japanese used all kinds of sneaky tricks ...
que mañana realizarán milagros
para ennoblecer más nuestra frontera. ...
-
I: Pará, pará, pará. Milagros, ¿qué pasa si la dejo? ... Millie calls her a traitor.
Ivo doesn't want to lose
her, he loves her. Millie tells him there's ...
-
Patients lose
trust at US hospital after hydraulic fluid incident ... 'Miracle Mermaid
Baby' Milagros
meets the
media after her successful operation ...
-
Help me get on with life after losing my father, and forget about the
items that
seemed so ... Dear Angel, I'm only 38 weeks old, still in Mommy's tummy. ...
-
... better known as nose jobs, tummy
tucks and ... commits professional misconduct and may
lose his license ... malpractice suit against Personal Best, Milagros
Horrego, 49 ...
-
-
Clifford the
big red dog : tummy
trouble ...

Fast Weight Loss Pill - Lose your tummy
fast - Guaranteed! ... Comment on Milagros
Center of Excellence in Migrant Health ...

... prayers for my Daughter Wendy. she is have alot of pain in her tummy
and ...
Blessed Mother, please pray that I will not lose
my friendship with Mike. ...
-
... 1 demaggica 1 nilesh 1 norrin 1 puppetry 1 aggregator 1 tummy
1 overstreet
... 1 cleveland 2 stanley 1 govind 1 milagros
2 peak 5 capa 1 flirt 2 thyroid ...
-
Pray for Milagros
to get healed with her high blood sickness and any ... He has
an enlarged heart, rapid pulse, distended tummy
and serious dental problems. ...
by Hr. Pez

14 september 2005


Ja hérna hér.

Svo virðist sem ég hafi átt ljóð dagsins á Ljóðasíðu Íslands miðvikudaginn níunda mars síðastliðinn.

En gaman.

Samt er ljóðafærsla þess dags tóm, þegar honum er flett upp sérstaklega.

Skrýtið.

Ætli ljóð dagsins hafi þótt of klæmið til að standa sem slíkt? Ætli einhver hafi kvartað og fengið það þurrkað út?

Það þætti mér nú reyndar hreint ósköp gaman líka.

Það má láta sig dreyma...
by Hr. Pez

13 september 2005


Að morgni þriðjudagsins tuttugastaogþriðja ágúst 2005 settist ég niður í mötuneyti vinnustaðar míns til að sötra lögbundið morgunkaffi með tveimur vinnufélögum mínum. Í því sem ég sest niður, þá flæki ég rassinn á mér (sem er aldrei meira en í meðallagi stór, jafnvel þótt tekið sé tillit til á köflum slakrar samhæfingar í útlimaburði) um hornið á stólbakinu. Afleiðingin var sú að það rifnar umþaðbil þriggja sentimetra langt gat á setuna á buxunum mínum, og eru þær því ónothæfar orðnar. Stóllinn sem um ræðir var óskemmdur bæði fyrir og eftir téðan tjónaatburð.

Af þessu tilefni mun ég að öllum líkindum gera mér ferð til tjónafulltrúa hjá tryggingafélagi í lok vinnudags, til að fá bættar þær buxur sem svo illa fór fyrir í vinnuslysi því sem hér um ræðir.

Það er vissara að vera vel tryggður í vinnunni: maður veit aldrei hvað getur komið uppá.
by Hr. Pez

09 september 2005


Fyrir mörgum árum (þetta á árabilinu '97-'98) hélt ég litla vasabók sem ég skráði í daglegar hugsanir, drauma, sitthvað hversdagslegt bókhald og nokkrar hugmyndir að sögum og ljóðum, misgóðum og að mig minnir engum sem ég notaði. Svo týndist þessi bók en fannst aftur í flutningunum í vor sem leið. Ég held ég hafi haft mest gaman af að rifja upp síðustu færsluna úr bókinni, þessa stælingu hérna:Maður í þagnarbindindi
getur verið þegjandalegur

en hann er ekki þögn

Hann er ekki þögn
handa sprungnum hljóðhimnum

Hann er með teppalímband
sem strengt er aftur fyrir hnakkaAldrei neitt minna en feitt respekt til handa þeim sem kannast við fyrirmyndina.
by Hr. Pez

08 september 2005


Ég ætla ekki að tjá mig neitt að ráði um grand exit Davíðs Oddssonar af sviði íslenskra stjórnmála. Ekki í dag. Kannski ég muni rifja upp þau ummæli hans sem eru mér minnisstæðust daginn sem hann flytur sig yfir í Seðlabankann. Kannski seinna, og kannski hreint ekki neitt.

Nei, ég ætla ekki að tala um daginn í gær á grundvelli íslenskra stjórnmála. Ég ætla að tala um minn eigin dag. Árný og stelpurnar sóttu mig í vinnuna um fimmleytið, frúin fór svo að vinna en við feðginin fórum ofan í Laugardal að gefa öndunum og gæsunum brauð. Una var óð og uppvæg út um allt, fékk hjá mér hverja brauðskorpuna á fætur annarri og otaði þeim af slíku offorsi framan í gæsirnar að þær áttu stundum fótum fjör að launa undan henni. Á meðan stóð Hrefna uppi á bekk og lá ekki á þeirri skoðun sinni að hún væri hrædd við mávana. Og reyndar gæsirnar líka. Samt fékkst hún til að fleygja stöku skorpu, og mannaðist ögn eftir því sem á leið.

Eftir stutt stopp heimavið var haldið í grill til tengdaforeldranna. Svo var haldið heim á ný, stelpurnar settar í rúmið og svo var ég kominn upp í rúm sjálfur stuttu upp úr klukkan níu.

Eftirminnilegasta stundin frá gærdeginum var rétt eftir að ég var sestur upp í bílinn þegar þær komu að ná í mig og frúin færði mér þær fréttir að í matarboðinu hjá tengdaforeldrunum skyldi grilla hrefnukjöt. Ég stóðst ekki mátið, sneri mér við í sætinu og sagði við eldri dóttur mína:

"Nei heyrirðu það Hrefna! Við erum að fara að borða hreeefnukjöööt!"

Svo sá ég smám saman hvernig augun í dóttur minni stækkuðu, svo lengdist á andlitinu öllu, og loks fóru augun á flot um leið og dóttir mín orgaði út um heljarstóra skeifu:

"Ég vil ekki láta éta mig!"

Það tók okkur foreldrana heljarlangan tíma að leiðrétta þennan leiða misskilning við dóttur okkar, eftir að fór að verða viðræðuhæft á ný fyrir orgum og okkur hafði tekist að gera okkur ásættanlega alvarleg í framan. Þó rifjaðist að lokum upp fyrir henni það sem við vorum búin að segja henni áður: að það væri til hvalur sem héti hrefna, og því ætti að grilla hvalkjöt í kvöldmatinn, ekki barnakjöt.

Hvað heldur dóttir okkar hjóna eiginlega um okkur? Heldur hún virkilega að við værum svo vondir foreldrar að deila því með henni fyrirfram ef við ætluðum að hafa hana í kvöldmatinn?

Voðalegt er þetta.
by Hr. Pez

07 september 2005


Ég hef í tvígang á síðasta sólarhringnum fengið þá skelfilegu tilfinningu, eitt ofurlítið sekúndubrot, að ég hafi framið stærstu afglöp starfsferils míns. Í bæði skipti rjátlaðist það af mér: í öðru tilvikinu reyndist misskilningurinn smávægilegur og auðveldur viðfangs þegar til kom, og í hinu tilvikinu kom meir að segja upp úr dúrnum að ég hafði réttara fyrir mér en mér klárari og háttsettari aðiljar, þegar allt kom til alls.

Mikil blessun er það að hafa yfirmenn sem finnst gaman að sjá að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Vitaskuld ekki eins gaman og þegar þeir geta sýnt fram á að þeir hafi haft rétt fyrir sér - það eru jú takmörk. En mér varð hugsað til þess hvað mér er vænt um heimssýn þess sem skiptir fúslega um skoðun þegar hann sér ástæðu til: Maður sem vill skilja ástæður þess að honum skjátlaðist áður mjakast með því skref fyrir skref í átt að betri skilningi á heiminum.

Þetta tengist því sem mér finnst svo oft fara fyrir ofan garð og neðan: Vísindunum er ætlað að afla þekkingar, ekki útbreiða viðurkenndan sannleika. Vísindunum er ekki ætlað að gefa okkur fullkomna og sanna mynd af heiminum. Þvert á móti: Vísindin vita ekki Sannleikann. Þeim er það ekki ætlað. Þetta er nokkuð sem ég held að býsna margir geri sér ekki grein fyrir.

Heimsmynd vísindanna byggir á þeirri frumforsendu að heimsmynd vísindanna á hverjum tímapunkti sé röng!

Við smíðum okkur líkön að heiminum, byggð á þeim staðreyndum sem við getum aflað okkur og sýnt fram á. Við vitum að líkan af heiminum gefur okkur einfaldaða mynd af honum, mynd sem við getum skilið og tekið góða og gilda, ef við setjum okkur inn í þau gögn sem liggja fyrir og samþykkjum þær forsendur sem liggja að baki líkaninu. En líkanið er ekki heimurinn.

Einhver mesta gleði sem ég held að vísindamaður geti fundið fyrir er sú sem fylgir þeirri uppgötvun að hann hafi haft rangt fyrir sér - að heimurinn hafi ekki verið eins og hann ætlaði. Þá hefur honum tekist að bæta skerpuna á mynd sinni af heiminum.

En nú er ég kominn býsna langt frá upphafinu: hvunndagslegum uppgötvunum á ofurlitlum smáatriðum sem hefðu mátt fara betur, og sem greitt var úr. Það voru nú öll ósköpin.
by Hr. Pez

06 september 2005


Nú get ég aldeilis neimdroppað.

Við buðum Gneistanum og spúsu hans í fiskibollur á sunnudagskvöldið var og horfðum í framhaldinu með þeim á forkeppnina í PPPP. Við sáum Siggu og Unni leggja Lummurnar naumlega, við þriðju brúði. Ég varð afar undrandi þegar frúin rifjaði upp fyrir mér fyrstu kynni mín af téðri Unni (sem ég þekkti reyndar hvorki þá né nú): þegar ég fékk ljóð frá henni til umsagnar, þá ungri og saklausri sveitastúlku á mölinni, með það fyrir augum hvort hentaði til útgáfu í sjöunda hefti neðanratsjárbókmenntatímaritsins Andblæs, fyrir átta árum. Þessu var ég alveg búinn að gleyma.

Allaveganna. Á leið heim með strætó eftir buxnakaupin í gær sá ég einn ógurlegan Vantrúarbola tilsýndar, þar sem hann beið í stóískri ró eftir einhverjum öðrum strætó en mínum. Ég þekki hann ekkert heldur.

Og í morgun, í því sem ég gekk framhjá Norræna Húsinu á leið til vinnu, gat ég ekki betur séð en treflum vafin frekja strunsaði í veg fyrir mig og stefndi í átt til Háskólans. Hana hef ég þó hitt og talað við í eigin persónu, þótt fartin á henni í morgun hafi verið slík að ekki hafi staðið vel á fyrir svoleiðislagað.

Buxurnar voru annars fínar, þetta eina par sem ég keypti. Ég er í þeim núna. Sakna þess einna helst að hafa ekki veskið í hægri vasanum. Það er í óhreina tauinu.

Ég gleymdi farsímanum reyndar líka. Það var ágætt.

Sem minnir mig á að ég átti ágætt símtal við mann sem var einusinni með mér í menntaskóla meðan ég gekk úr vinnunni oní bæ í gær. Og rakst á annan slíkan meðan ég beið eftir hraðleiðinni í Grafarvog í gjólunni á Lækjartorgi.

Það voru hvártveggju ánægjulegar samræður.
by Hr. Pez

05 september 2005


Veröld fláa hefur sýnt sig ótæpilega upp á síðkastið. Og flestöll stráin stungið mig ótæpilega, jafnt í rass sem læri. Af því tilefni er ég farinn í bæinn að kaupa mér buxur.

Svona þetta tvennar til þrennar.
by Hr. Pez

02 september 2005


Lífið er fallegt þessa dagana. Frúin kom heim í gær, eftir að hafa verið strandaglópur í Kaupinhöfn í einn sólarhring. Daginn þar áður fórum við feðgin í í heimsókn til stórabró. Stelpurnar léku við frænku sína og ég hjálpaði foreldrunum við að skipuleggja komandi óvissuferð sem þau halda utanum. Þurfti við það að taka á honum stóra mínum og rifja upp alla mína takmörkuðu kunnáttu frá háskólanámi mínu í grasafræði, og frá því er ég var þjálfari Ungmennasambands Austur-Húnvetninga í plöntugreiningu fyrir Landsmótið á Húsavík sumarið 1987.

Þetta var ljúft. Við ættum að gera meira af því að koma saman.

Skemmtilegt spor í þá átt verður einmitt á morgun, þegar bróðurdóttir mín kemur og gistir hjá okkur, einmitt vegna téðrar óvissuferðar. Svo verður kaffi fyrir alla á sunnudeginum.

Það hrynja annars yfir mig listahugmyndirnar: Topp tíu obskúru hljómsveitirnar, topp fimm uppáhaldsljóðin, topp fimm raunveruleikasjónvarpsþættirnir... nei anskotinn hafiða. Þar dreg ég þó mörkin. Enda löngu hættur að horfa á raunveruleikasjónvarp - einn daginn nennti ég ekki lengur að láta það fara í taugarnar á mér.

Ég hefði aldrei átt að byrja á þessari vitleysu. Ég veit ekki alveg hvort ég á þar við listana eða raunveruleikann.

Það stefnir annars í að fimmtudagskvöldin fari skánandi sem sjónvarpskvöld ef eitthvað er. Fínt að taka frá eitt kvöld í viku til að horfa á sjónvarpið. Jón Þórjón og félagar eru kannski ekki alveg jafn beittir og forðum en þó alltaf áhorfanlegir. Svo er alltaf hægt að vona að eitthvað skárra komi í staðinn fyrir Sporlaust-þættina. Og mér líst rétt rúmlega sæmilega á þáttinn sem byrjaði í gærkveldi á Skjá Einum, um doktor Hús og hans teymi. Hægt að dvelja sér við hann.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com