<$BlogRSDUrl$>

19 ágúst 2005


Nokkur orð í viðbót um bílabænina hans afa Hjörvars - svo allt sé á tæru.

Hvorki ég né nokkur annar ber kala til nokkurs manns yfir þessu. Þarna virðist í öllum tilvikum hafa verið á ferð hið indælasta fólk, sem einfaldlega vissi ekki betur. Fólki finnst þetta falleg bæn og vill leyfa öðrum að njóta hennar. Allir hafa þegið með þökkum að fá loks að vita hver væri höfundur hennar.

Auðvitað viljum við ekki hindra nokkurn mann í því að fara með þessa vísu. Þvert á móti; við viljum endilega sjá hana fara sem víðast. En okkur er umhugað um þetta tvennt: að rétt sé farið með vísuna og höfund hennar.

Nokkrar leiðréttingar og viðbætur:

Konunni fyrir vestan varð víst svo mikið um tíðindin að hún hætti framleiðslunni oltúgeðer. Því miður segi ég - mér finnst hún mætti gjarnan byrja aftur. Einhvernveginn þarf að koma í umferð réttri útgáfu og höfundi.

Félag aldraðra á Selfossi hafði engin bein afskipti af dreifingu bænarinnar - hún virðist bara hafa verið í umferð á meðal nokkurra félagsmeðlima sem þótti vísan falleg. Og frændi minn formaðurinn (sem ég sá síðast á ættarmóti á Hólum í Hjaltadal fyrir átta eða níu árum) er systursonur afa. Og mikill indælis kall, enda af góðu fólki kominn.

Afi ók ekki um á Landróver. Hann átti nefnilega þennan forláta Dodds Vípon, sem ekki var einusinni moldargulur, heldur fölblár. Kannski var ég að rugla saman við Landróverinn í Kárdalstungu í Vatnsdal, sem hristist með mig, afa og Þolla frænda upp eftir heiðum í girðingarvinnu eitt sumarið í upphafi níunda áratugarins. Í lok eins vinnudagsins, uppi á háheiðinni, uppgötvuðum við að bremsurnar í jeppanum væru farnar. Heimferðin eftir, með öllum sínum hliðum og bröttu brekkum. Ég man enn hvernig Landróverinn vældi niður síðustu brekkuna í fyrsta gír í lága drifinu, meðan ég þurfti að stökkva út úr honum á ferð og hlaupa eins og fætur toguðu á undan honum niðreftir til að opna hliðið við brekkufótinn í tæka tíð.

Svona svíkur minnið mann. Og kannski ekki svo skrítið: Þegar ég var orðinn nógu gamall til að mér væri treystandi í langferðirnar með afa var hann kominn á Suzuki.

Eða var það Subaru? Rétt í þessu var ég að fá póst frá móður minni, þar sem meðal annars er þessi ágæta saga hérna:

Síðasti bíllinn hans var lítill fjórhjóladrifinn Subaru. Á þeim bíl var hann þegar hann fór fram hjá stórum fjallabíl með hóp ferðamanna við jökulkvísl eina á Sprengisandi. Bílstjórinn og leiðsögumaðurinn stóðu við kvíslina og spáðu í vaðið, þótti áin ekki árennileg og veltu fyrir sér áhættunni við að fara á ská ofan við brotið eða bara beint af augum. Þar sem þeir stóðu þarna sáu þeir lítinn Subaru koma á fleygiferð, bílstjórinn sýndist vera lítill karl, með mórauðan hatt á höfði. Ekki stoppaði karl er hann kom að jökulkvíslinni, hægði að vísu aðeins á sér en skellti sér síðan útí flauminn, þræddi bestu leiðina ofan við brotið og yfir komst hann þótt Subaruinn væri ansi djúpsigldur. Karlinn og Subaruinn hurfu síðan með það sama í rykmekki. Eftir stóðu bílstjóri og leiðsögumaður, agndofa og orðlausir. Þeir hefðu eftir á að hyggja alveg þegið ráð hjá sér reyndari manni áður þeir legðu í kvíslina.

Þessi saga hefur aldrei verið skráð en Jónas Sigurjónsson á Akureyri var í rútunni og sá hvað gerðist, hann kann þessa sögu vel. Einar Guðmann var hins vegar í bílnum með afa þínum og hann kann þessa sögu líka, mig minnir að hann hafi einhverntíma sagt frá svipnum sem hann sá á andlitum þeirra er stóðu á bakkanum.


En þetta var nú útúrdúr. Og ég verð enda seint talinn hafa mikið vit á jeppum og stórum bílum.

Að lokum má geta þess að útgáfan sem afi lét dreifa í sjoppurnar fyrir norðan var skrautrituð af bróðurdóttur hans, Guðrúnu Jónsdóttur, húsfreyju í Villingadal. Og þá fer þetta að verða upptalið.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com