<$BlogRSDUrl$>

26 ágúst 2005


Mig dreymdi Shelley Long í nótt. Ég man ekkert meira úr draumförum næturinnar en akkúrat þetta: ég sá haf af fólki og eina andlitið sem ég greindi í þrönginni var Shelley Long. Hún brosti.

Atarna er tákn sem vantar í draumráðningabækur.

Annars er ég í ljómandi góðu skapi í dag. Ég fékk svo góðar fréttir í vinnunni í morgun að ég tók nokkur dansspor við sjálfan mig á leiðinni niður að kaffivélinni. Ekkert sem ætti að hafa áhrif á gengi fyrirtækisins á hlutabréfamarkaði (það vill segja, fréttirnar, ekki dansinn), bara góðar fréttir fyrir sjálfan mig.

Ögn síðra er að ég verð grasekkill síðar í dag: frúin er á leið til Færeyja með kvöldvélinni og verður í tæpa viku.

Það er ekkert í sjónvarpinu. Ekkert. Naðanaðanaða. Nema mér skilst að ein ljótasta mynd allra tíma sé í kassanum annað kvöld.

Ég sá þó Skrúbb í gær. Þótt þættirnir séu ekki nándar nærri eins beittir og í upphafi eru þeir samt ennþá það eina sem horfandi er á í sjónvarpinu þessa mánuðina. Við hjónin erum farin að taka víðgesjón fimm til sex kvöld í viku. Í fyrrakvöld sáum við Finding Neverland, sem var ágæt, en fölnaði þó í samanburðinum við Hótel Rúanda, sem við sáum kvöldið þar áður.

Það er mynd sem allir ættu að sjá. Segja svo, "Þetta er skelfilegt," og halda áfram að borða kvöldmatinn sinn.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com