<$BlogRSDUrl$>

18 ágúst 2005


Ég heiti í höfuðið á móðurafa mínum, Angantý Hjörvari Hjálmarssyni, kennara og bónda frá Syðri-Villingadal í Eyjafirði. Það eru orðin sjö ár síðan hann skildi við.

Æskuheimili afa míns heitins var afskekktur torfbær í grösugum afdal fram til sveita, umluktum háum fjöllum og hólar byrgðu dalsmynnið. Það var langt á milli bæja í þá daga, og þar sem maður er jú manns gaman og (setjið inn klisju að eigin vali) þá var kvöldum oft eytt við kveðskap og skáldskaparmál. Svo afi og alsystkin hans þrjú fengu öll bragfræðina í blóðið með móðurmjólkinni.

Svo liðu ár. Það kom rafmagn. Það komu ísskápar. Þvottavélar. Útvarpsviðtæki. Og bílar.

Á fullorðinsárum setti afi minn saman eina litla ferðabæn, til að hafa í bílnum sínum meðan hann ók af einum stað á annan. Oft upp um fjöll og firnindi. Lengi framan af var bænin bara vélrituð á lítinn miða og límd í mælaborðið eða á hanskahólfið með glæru bókaplasti. Síðar - eftir að hann hafði um nokkurt skeið mátt þola ágang fólks sem vildi sjálft fá eintak af bæninni í sinn eigin bíl - sá hann til þess að bænin var prentuð á sjálflímandi miða sem voru svo seldir í bensínsjoppum á Norðurlandi (og e.t.v. víðar). Við hjónin eigum dálítinn bunka af þessum miðum ennþá, ofaní kassa. Verst er hvað límið tollir illa á vínylnum, svo enn er full þörf á að skella glæra bókaplastinu yfir kveðskapinn.

Nema hvað.

Í gærkvöldi var ég að tala í síma við ástsæla móður mína. Hún tjáði mér það að vitlaus útgáfa af þessari bæn hefði um nokkurt skeið verið í umferð á Suðurlandi, auðkennd með undirskriftinni Höf.ók. Það kvæði svo rammt að þessu að kona ein á Vesturlandi málaði og skreytti ósköp fallega platta með vitlausri og höfundarlausri útgáfu af bæninni og seldi þeim sem vildu kaupa.

Höf.ók.

Það reiddi mig að heyra þetta. Eflaust álíka mikið og móður mína sjálfa þegar henni bárust fréttirnar af skrautplöttunum að vestan til að byrja með. Hún hafði samband við téða konu, sem var miður sín við að heyra þetta, og hefur gert hlé á framleiðslunni. Hjá henni frétti móðir mín að vísan væri í umferð á Suðurlandi í þessari vitlausu útgáfu, höfundarlaus, í dreifingu félags aldraðra á Selfossi. Svo hún hafði samband við formann félagsins, sem vildi svo hlálega/skemmtilega til að er náskyldur honum afa - því er stolið úr mér hvort afi hafi verið móðurbróðir hans eða föðurbróðir (en hálfbróðir, svo allt sé sem réttast). Það var sama sagan af þeim bænum, bara enn meira svoleiðis. Hann var víst alveg í rusli yfir þessu, greyið karlinn.

Af þessu tilefni þykir mér nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi.

Þessi bæn er eftir afa minn Hjörvar. Það er eitt sem er mikilvægt að komi fram. Í öðru lagi skiptir miklu máli að rétt sé farið með bænina. Í þriðja lagi hvílir á henni höfundarréttur.

Höf.ók.

Fjölskyldu minni finnst algjört lágmark að þeir sem sjá sér eiginhag í því að selja þessa bæn, í hvaða útgáfu sem það kann að vera, láti að minnsta kosti ígildi höfundarlauna (hvaða hraksmán sem þau nú annars eru - ég veit það ekki) renna í þágu góðs málefnis. Eigendur höfundarréttar hafa ekki fundað formlega um þetta mál, en þó hefur kviknað þeirra á milli sú hugmynd að rétt væri að láta Landsbjörgu njóta þessa. Afi var alla tíð mikill jeppakarl; árum og áratugum áður en þótti móðins að eiga jeppa ók hann um á gömlum, moldargulum Landrover. Þegar fór að bera á ríkisbubbajeppum var karlinn skiptur yfir í fjórhjóladrifna Suzuki, og fór þannig allra sinna ferða. Ef eitthvað hefði útaf borið hefði það verið verk Landsbjargar (eða forvera hennar) að ná honum úr ógöngunum.

En í eitt skipti fyrir öll, til þeirra sem málið varðar og reka hér inn nefið, þá er bílabænin hans afa Hjörvars svona:

Blessaðu, Drottinn, bílinn minn,
bjargaðu mér frá skaða,
lát mig velja veginn þinn
og vera á réttum hraða.


Akið á guðs vegum elskurnar, og ef þið sjáið þessa vísu einhversstaðar (sérstaklega ef hún er með orðinu láttu í staðinn fyrir lát í upphafi þriðju línu) þá leiðréttið og vekið athygli á að höfundur hennar er kunnur. Hann hét Angantýr Hjörvar Hjálmarsson (1919-1998). Hann hafði fangamarkið A.H.H.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com