<$BlogRSDUrl$>

11 ágúst 2005


(Einfaldur má vera ánægður
fyrst talinn er löstur að vera tvöfaldur.
)

Í tengslum við færslu sem ég las (hjá manni sem gladdi mig að sjá aftur í bloggheimum eftir langa fjarveru) fór ég að velta fyrir mér eftirfarandi:

Af hverju er sagt um fólk að það sé fábjánar?

Ég á við, bjáni, sko, það er sá sem er vitlaus, ekki satt? Svo fábjáni, hlýtur það ekki að vera sá sem er bjáni í fáu? Væri það í sjálfu sér ekki bara nokkuð vel af sér vikið? Nema náttúrulega viðkomandi sé þess meiri bjáni í því fáa sem hann tekur sér fyrir hendur, nái óviðjafnanlegum hæðum í sérhæfðum bjánaskap...

(Einn fjölómenntaður maður
var margfáfróður.
Vissi ekkert um æðri plöntur
en allt um lággróður.
)

Mér finnst ég einmitt alltaf vera að gera eitthvað bjánalegt - það fer um mig bjánahrollur yfir ýmsu sem ég stend sjálfan mig að, nánast upp á dag hvern. Ég læt út úr mér einhverja bévaða vitleysu. Ég þegi þegar snappí kommbökkin ættu að flæða í logagylltum kvóteringum útum trantinn á mér (L'esprit de l'escargot, anyone?). Ég frem fáránleg umhverfishryðjuverk með útlimunum á mér án þess að fá við neitt ráðið. Ég segi skelfilega mislukkaða brandara (sem ég nota bene veit vanalega fyrir að ógnar míkrókosmískum heimsfrið að láta heyrast upphátt). Og stundum stend ég mig að því að vera bara nautslegur durtur við þá sem eru mér næstir.

Sumsé: Oft finnst mér ég vera soddan margbjáni.

---

Ákvað, fyrst ég minntist á það, að þreifa mig áfram með bloggerkommentin. Sjáum hvað setur.

---

Tékkaði annars nokkur á hljóðskránum hennar Natalie í gær? Var þetta nokkru skárra en það leit út fyrir að vera?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com