<$BlogRSDUrl$>

12 júlí 2005


Mig langar ekki að tala um neitt annað en það hvernig ég hef það í dag. Og ég hef það fínt.

Um helgina var ættarmót Torfufellsættarinnar haldið norður í Eyjafirði. Það lukkaðist vel. Við sváfum í tjaldvagni í rokrassgatinu á Hrafnagili. Og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, enda minnsta málið sosum að klæða af sér norðlenska sumarveðrið. Eða drekka sér til hita.

Ég tók mér frí í gær og við dvöldumst deginum lengur fyrir norðan. Við gistum í sumarbústað foreldranna frammi í firði. Það var ósköp ljúft. Allir í fjölskyldunni komust á hestbak, þeir sem það vildu. Verði þeim að góðu.

Hápunktur helgarinnar var í gærkvöldi eftirt að heim var komið, þegar frúin dró mig með sér á tónleika með Antony and the Johnsons. Ég hafði ekki heyrt með þeim nema hálft lag áður, reyndar nokkrum sinnum, og ekki fundist yfir mig mikið til koma. Svo ég bjóst ekki við of miklu.

Það má segja að strákurinn (?) hafi gert gott betur en að standa undir væntingum - tónleikarnir voru stórt súxé. Lagið sem ég hafði heyrt áður þótti mér betra þarna en nokkru sinni, en þó með þeim lakari á efnisskránni. Undir öðrum lögum var ég dolfallinn af hrifningu.

Hvernig er hægt að lýsa þessu?

Mér datt tvennt í hug meðan ég stóð og hlustaði og horfði á Antony sjálfan speglast í súlunum á Nasa.

Annars vegar minnti þetta mig dálítið á Nick Cave eins og hann var á Boatman's Call, bara áttund ofar.

Mér leið stundum líka eins og ég væri á tónleikum með Tori Amos, fastri í karlmannslíkama.

Fyrstu tónleikar sem ég fór á og orð er af gerandi voru einmitt með Tori Amos einni við píanóið á Hótel Borg, fyrir þetta tólf þrettán árum.

Þessir slöguðu hátt í þá reynslu.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com