<$BlogRSDUrl$>

14 júlí 2005


Þeir sem ekki hafa væflast þar inn nú þegar geta tékkað á því sem ég hef gert upptækt síðustu vikurnar. Lunginn er kannski ekki mikið fyrir augað, en þó finnst mér sem leynist gullmolar inn á milli.

Svo bið ég bara að heilsa.
by Hr. Pez

13 júlí 2005


This just in: Mér var að berast í hendur eintak af smásagnablaði Nýs lífs, þar sem birtist eftir mig sjúkrahúsrómaninn "Veröld Soffíu hrynur." Þeim sem eiga eftir að lesa söguna er bent á að hún endar í laus lofti; vandvirknislúsunum á Fróða tókst að klípa aftan af henni síðustu línuna í leiátinu. Hún ætti annars að enda á þessum orðum, skyldi einhvern langa til að vita það (VARÚÐ SPILLIEFNI):

...tikk, takk, suss...

Þetta er víst það skásta sem hægt er að gera í málunum.

Að öðru leyti er þörf mín þegjandi.
by Hr. Pez

12 júlí 2005


Mig langar ekki að tala um neitt annað en það hvernig ég hef það í dag. Og ég hef það fínt.

Um helgina var ættarmót Torfufellsættarinnar haldið norður í Eyjafirði. Það lukkaðist vel. Við sváfum í tjaldvagni í rokrassgatinu á Hrafnagili. Og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, enda minnsta málið sosum að klæða af sér norðlenska sumarveðrið. Eða drekka sér til hita.

Ég tók mér frí í gær og við dvöldumst deginum lengur fyrir norðan. Við gistum í sumarbústað foreldranna frammi í firði. Það var ósköp ljúft. Allir í fjölskyldunni komust á hestbak, þeir sem það vildu. Verði þeim að góðu.

Hápunktur helgarinnar var í gærkvöldi eftirt að heim var komið, þegar frúin dró mig með sér á tónleika með Antony and the Johnsons. Ég hafði ekki heyrt með þeim nema hálft lag áður, reyndar nokkrum sinnum, og ekki fundist yfir mig mikið til koma. Svo ég bjóst ekki við of miklu.

Það má segja að strákurinn (?) hafi gert gott betur en að standa undir væntingum - tónleikarnir voru stórt súxé. Lagið sem ég hafði heyrt áður þótti mér betra þarna en nokkru sinni, en þó með þeim lakari á efnisskránni. Undir öðrum lögum var ég dolfallinn af hrifningu.

Hvernig er hægt að lýsa þessu?

Mér datt tvennt í hug meðan ég stóð og hlustaði og horfði á Antony sjálfan speglast í súlunum á Nasa.

Annars vegar minnti þetta mig dálítið á Nick Cave eins og hann var á Boatman's Call, bara áttund ofar.

Mér leið stundum líka eins og ég væri á tónleikum með Tori Amos, fastri í karlmannslíkama.

Fyrstu tónleikar sem ég fór á og orð er af gerandi voru einmitt með Tori Amos einni við píanóið á Hótel Borg, fyrir þetta tólf þrettán árum.

Þessir slöguðu hátt í þá reynslu.
by Hr. Pez

08 júlí 2005


Ég er kominn með þetta: Þetta er allt bullandi vinstri Baugsslagsíða og massífur áróður gegn Sjálfstæðisflokknum. Það er verið að fara að birta ákærur gegn toppunum í Vísismafíunni og viðskiptamaskínan úti í Bretlandi er farin að spyrja óþægilegra spurninga. Og hvað gerist? Eitthvað sem losar þá undan athyglinni eins og hendi væri veifað. Hentugt, ekki satt?

Því til sönnunar: Í fréttatíma Stöðvar 2 var ekki aðeins talað við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur (og allir vita nú úr hvaða hendi hún étur) heldur líka herra Ólaf Ragnar Grímsson; sjálfur Forsetinn okkar stóð úti á götu í miðborg Lundúna, þangað sem engum var hleypt, horfði svellkaldur í myndavélina og lýsti beint frá atburðum, eins og þaulvanur fréttaritari Vísismafíunnar. Og við vitum líka alveg hvar hans hollusta liggur, eftir atburði síðasta sumars...

Af hverju vildi svo heppilega til að þau voru þarna bæði á staðnum? Og hver ætli hafi nú borgað flugið fyrir þau út?

Tilviljun? Heeeld ekki.
by Hr. Pez

07 júlí 2005


Á heimavígstöðvunum bar á hinn bóginn til þeirra tíðinda að Rithringurinn birti fyrir stundu rýni mína á Hugsjónadruslu Eiríks Arnar Norðdahl.
by Hr. Pez


Þau tíðkast núna, breiðu spjótin.

Ljóst að eitthvað minna verður úr vinnunni í dag en efni stóðu til í fyrstu, ef að líkum lætur. Við stöndum yfir útvarpi vinnufélaga míns og hlustum á BBC World Service. Kínverskur yfirmaður minn er með þá tilgátu að þetta hljóti að vera Frakkarnir; þeir hefðu ætlað að gera þetta fyrir atkvæðagreiðsluna í gær en tafist í skrifræðinu. Franski vinnufélaginn hreyfir ekki við neinum haldbærum mótbárum.

Annars er ekki hægt að segja að þetta líti vel út.
by Hr. Pez

05 júlí 2005


Við fórum nokkrir út að borða úr vinnunni í hádeginu. Og þá á ég við út undir beran himin, á veitingastaðnum í Nauthólsvík. Það var ljúf stund, sólin skein, villikanínurnar skoppuðu kringum pallinn og útsýnið var fagurt yfir að... ööhhh... iðnaðarhverfinu í Kópavogi.

Hitti Þrumu sem var þarna sömu erindagjörða með sínum vinnufélögum.

Þar fer hress stúlka.
by Hr. Pez


Sú yngri er tveggja ára í dag. Við erum lítið heimavið þessar helgarnar, svo það verður haldið upp á daginn með léttu kaffiboði fyrir nánustu fjölskyldu eftir vinnu.

Hún fór í tveggja ára hjartaskoðun í vikunni sem leið. Opið milli sleglanna og hitt milli gáttanna eru hvártveggju gróin og gufuð upp, svo hjartað hennar er orðið heilbrigt og hraust. Fósturæðin hleypir reyndar enn í gegnum sig, en það á ekki að þurfa að há henni neitt á næstu árum.

Ekki er aðeins allt gott sem endar vel, heldur er hitt í góðu lagi líka, það sem enn er ekki gengið yfir að fullu.
by Hr. Pez

04 júlí 2005


Fjölskyldan eyddi helginni í Skorradalnum á svokölluðu Döffmóti, landsmóti heyrnarlausra. Það var alveghreint ágætt. Önnur útileguhelgin í röð, og sú þriðja í uppsiglingu.

Á laugardagskvöldinu var varðeldur og kvöldvaka. Þar varð ég sjálfum mér til skammar með snautlegri frammistöðu í tyrkneska símanum, sem að sjálfsögðu var látinn ganga á táknmáli. Skemmtilegasta uppákoman var þegar maður kom gangandi eftir veginum, neðan frá ströndinni eða hinumegin úr dalnum, inn í þröngina og spurði hvort ekki væri hægt að kaupa sér bjór hérna. "Er þetta ekki bjórhátíð?" Það kom dálítið á hann þegar hann uppgötvaði að þarna var bara samsafn af heyrnleysingjum og aðstandendum þeirra, og hafði hver nóg með sitt eigið í bjórdeildinni.

"Jahérnahér," sagði hann og settist niður, vonsvikinn eftir gönguna. "Ég sem hélt að hér væri Duff-mót."
by Hr. Pez

01 júlí 2005


Fór á tónleika í gærkveldi með Magnúsi, Óla, Eygló og Hafdísi. Við hittumst heima hjá okkur og löbbuðum svo bara út í Egilshöll. Þetta var magnað.

Ég var hrifnari af Leaves en fólkið í kringum mig. Og svo virðist sem stór hluti af því að fíla karlana í Duran Duran hafi falist í því að vera nógu nálægt sviðinu. Eða kannski höfum við Magnús bara svona deprímerandi áhrif hvor á annan og aðra í kringum okkur þegar við komum saman og þykjumst vera gáfulegir og kúl. Þetta var þó hin ágætasta skemmtun, fyrir utan að þeir hefðu eftilvill mátt spila minna af leiðinlegum lögum um miðbikið.

Ég uppgötvaði mér til óvæntrar ánægju að Come Undone og Ordinary World eru hvorttveggja mjög góð lög. Ég hafði bara aldrei hugsað út í það áður. Og að Wild Boys er hreint ekki það hrat sem ég var frá fornu fari búinn að bíta í mig að það væri. The Union of the Snake gerði sig á hinn bóginn ekki alveg.

Gaman að þessu.
by Hr. Pez


Birta vikublað, nú í morgunsárið: Eldri afurðin er í einkaviðtali á blaðsíðu 28 um múmínkex, ættarmót, útlönd (og Þýskaland) og gubb, svo fátt eitt sé nefnt. Og þessi líka sæta mynd af henni í hafi af brennisóleyjum, eins og hún sé einhversstaðar uppi í sveit, en ekki í Grafarvogi.

Fyrir nokkru buðum við Magnúsi og kærustunni hans í mat, henni Brynhildi. Hrefna sá um að hafa ofanaf fyrir gestum meðan foreldrarnir stússuðust. Og virðist hafa sinnt hlutverki sínu með slíkri prýði að nokkrum dögum síðar hringdi kærastan og spurði hvort hún mætti ekki taka viðtal við dóttur okkar: það væri hreinasti glæpur að láta alþjóð fara á mis við visku hennar og speki stundinni lengur. Við hjónin sögðum bara "nautahakk, namm og takk," en þegar við færðum stelpunni tíðindin tók hún af okkur öll völd og krafðist þess að fá að sjá um og upparta sitt eigið kaffiboð sjálf, takk fyrir. Svo þegar stóri dagurinn kom var ég rekinn fram í stofu (frúin var að heiman) meðan dætur mínar tvær sátu með blaðakonunni inni í eldhúsi í hrókasamræðum, drukku mjólk úr dúkkustellskaffibollum og snæddu múmínkex meððí.

Og þetta er afraksturinn.

Stoltur af minni.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com