<$BlogRSDUrl$>

14 júní 2005


Vá maður. Bara tekinn í bakaríið af ekki ómerkari manni en Orra Harðar í kommentunum eftir færslu gærdagsins.

Ég er dáldið upp með mér.

Hvað gekk mér til? Er nema von að spurt sé. Ég spyr mig að því sjálfur, konfrontasjónsfóbinn sem ég er.

Látum samt ekki liggja milli hluta að auðvitað hef ég gaman af laginu um hann Jónas. Maður þarf að vera húmorslaust viðrini og himpigimp til að hafa það ekki. Og upphafslínurnar sem ég tíndi til eru ósköp hnyttilegar og allt það. En þær gera sig ekki alminlega nema í söng.

Allt sem ég vildi sagt hafa er að þetta á við um marga af textum Megasar: þeim fer best að vera sungnir. Þetta er líkastil það sem átt er við með kategóríuheitinu söngvaskáld, með áherslu á söngva.

Þeir eru til sem stika flórsteina borgarinnar og halda því fram fullum fetum að Megas eigi skilið að teljast þjóðskáld til jafns við, tjah, Tómas, eða Stein, eða Þorstein frá Hamri. Jónas Hallgrímsson. Ég ræddi við einn slíkan í gær, áður en ég dreit færsluna. Sá kunni níðkvæðið um hann Jónas utantextablaðs. Hann flutti það fyrir mig. Hann er einn af þeim sem finnst sjaldnast mikið koma til lagasmíðanna hjá Megasi, en finnst það allt í lagi því hann er svo Mikið Skáld. Hans líkar eru þeir sem mér finnst mega slá utanundir með orðum eins og þeim sem opnuðu færsluna í gær. Þetta er það sem ég vil mótmæla þegar ég segi: Það eru lagasmíðar Megasar sem fá okkur til að veita ljóðum hans eftirtekt. Og fyrirgefa honum hnökrana sem hlaupa annað veifið á kveðskaparþráðinn.

Það þarf ekki að leita lengi að ljóðum eftir Megas sem gera sig vel á prenti og í upplestri, svo allrar sanngirni sé gætt. Ég gæti nefnt eftirfarandi erindi úr Tveimur stjörnum, sem föður mínum, til dæmis, finnst með fegurstu ljóðlínum sem hann veit (og hann er yfir meðallagi lesinn í arfinum, karlinn):

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli
því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.


Það þarf ekki að eyða orðum á hugsunina bak við textann - mann verkjar í hjartað bara við lesturinn. Mig langar að vekja athygli á höfuðstafaleysinu og því hvernig hver lína er stuðluð þess í stað. Óvenjulegt, já. En gott og gilt, og gerir sig vel. En gleymum ekki að það sem gerir hvað mest fyrir þessar línur er lagið sem þær eru sungnar við. Þeim er ætlað að vera sungnar. Þetta er söngtexti. Ekki gleyma að gefa gömlum manni kredit fyrir lagasmíðarnar.

Vonandi er honum Orra (sem ég vil óska alls velfarnaðar á þeim vegi sem hann er að byrja að feta) rórra við þessi orð mín en áður. Ég ætlaði mér ekki þá dul að gera nokkrum manni gramt í geði.

Ég get ekki ímyndað mér að maður af Megasar kalíberi reki hér inn nefið að jafnaði. Og ég á bágt með að trúa að hann myndi kippa sér nokkuð upp við orð mín frá í gær, jafnvel þótt svo væri, eða þykja sem þau vægju á nokkurn hátt að listrænum heiðri hans. En ef einhver veit til þess að hann Magnús blessaður hafi lesið þessi orð mín og sárnað þau, þá má sá hinn sami bera honum beiðni mína til velvirðingar.

P.S. Ég hef farið á tónleika með Megasi. Og mér fannst hann spila ágætlega á gítar. Betur en ég.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com