<$BlogRSDUrl$>

28 júní 2005


Ættarmótið var geðþekkt: þótt það að hanga með frúarslektinu sé kannski ekki orðabókarskilgreiningin á hipp og kúl þá er þetta upp til hópa ágætt fólk sem er erfitt að láta sér leiðast með. Það var vel mætt; meir að segja mætti einn ættleggurinn komplett þrátt fyrir að afinn í fjölskyldunni hefði dáið í vikunni áður. Og höfðu allir af mótinu mikla skemmtan.

Eitt situr þó í mér. Á laugardagsmorgninum var farið í "skemmtilegan kynningarleik" (ég ætla ekki að gera grín hér og nú - þessi færsla er um annað) sem gekk út á að fólk úr aðskildum leggjum ættarinnar rottaði sig saman í fimm til átta manna hópa og kynnti sig og ræddist við, milli þess sem forláta bjöllu var hringt til að láta fólk vita hvenær skyldi hætta að tala og fara að leita, eða öfugt.

Þar sem ég stóð í einum slíkum hóp var eitthvað við það hvernig yngri dóttir mín rellaði í fangi mér, auk þess sem einhver sagðist eiga heima í Noregi sem varð til þess að ég fór að hugsa eitthvað annað; mér datt eitthvað heimskulegt í hug um Norðmenn og svo skellti ég uppúr. Ekki yfir neinu sérstöku. Ég var bara í ágætu skapi.

Þá áttaði ég mig á því, um leið og ég tók eftir að allir í hópnum störðu á mig forviða, að þá var tengdafaðir minn nýbúinn að votta samúð sína einni af tengdadætrum mannsins sem um var getið hér að framan.

Ég þagði það sem eftir var af þeirri sessjón, og sagði reyndar eins lítið og ég gat tölvert fram eftir degi. Og fór hjá mér í hvert skipti sem ég sá konuna það sem eftir var helgar. Einhvernveginn er ekki hægt að biðjast afsökunar á svonalöguðu. Maður verður bara að þegja, láta lítið fyrir sér fara og vona að hægt sé að láta eins og þetta hafi aldrei gerst.

Lexía helgarinnar: Aðgát skal höfð.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com