<$BlogRSDUrl$>

20 júní 2005


Í tilefni af sex ára brúðkaupsafmæli okkar hjóna í gær fékk ég heimsendan frægan listamann og söngvaskáld til að kyrja okkur í eigin persónu við ómþýðan gítarundirleik rómantíska söngva í rúmið...

Nei, guð forði frúnni frá þeirri martröð.

En blómvöndurinn sem ég stalst til að panta handa henni kom á tilsettum tíma og stóð heima að rétt í þann mund kom frúin á fætur, mátulega til að taka á móti sendingunni.

Kvöldið áður var ég yfir mig hræddur að óvænti parturinn af ánægjunni færi til ónýtis: Við fengum Óla og Eygló í heimsókn og meðan við vorum úti að kasta frisbídiski með eldri dóttur minni asnaðist ég til að segja honum Óla að ég hefði verið í grennd við Hagkaup í Spönginni þegar Á móti sól tróð þar upp með harmkvælum. Í téð skipti var ég þar sumsé einn með sjálfum mér, að laumast í blómabúðina sem stendur þar steinsnar frá.

Svo þegar frúin fór að tala um það yfir kvöldmatnum að við hefðum öll verið í þessum sömu Hagkaupum og sníkt þar fríar pylsur og horkók uppúr hádeginu spratt út á mér kaldur sviti þegar Óli spurði hvað henni hefði þá fundist um performansinn hjá Á móti sól. "Nei blessaður, við vorum löngu farin áður en þeir byrjuðu," svaraði frúin. Og eftir þögn sem mér fannst sem varði heila eilífð leiddist talið að einhverju öðru.

Við spiluðum annars herkænskuspil fram á rauða nótt, og höfðu allir af því allnokkurt gaman. Herkænska er þó kannski ekki mín sterkasta hlið, eins og sannast af ofangreindu dæmi.

Ég eyddi bróðurpartinum af síðdegi gærdagsins í sjósundferð með Magnúsi, Ása og Smára nokkrum Tarfi. Þessi ferð var í alla staði mun ánægjulegri en sú fyrsta og vellíðanin sem streymdi um kroppinn á eftir illlýsanleg. Það vill segja, fyrst (á leiðinni ofaní) streymdi ekkert um kroppinn annað en hreinræktað panikk. Svo var það doði (þær fimmtán mínútur sem maður var úti). Þá óstöðvandi skjálftar (þegar uppúr var komið og á leiðinni í heita pottinn í Sundlaug Seltjarnarness). En svo var líka eins og blessuð skepnan skildi.

Svo kom Magnús í heimsókn um kvöldmatarleytið og snæddi með okkur flatböku. Hann færði okkur ánægjulegar fréttir af sjálfum sér. Þegar hann var farinn áttum við hjónin notalega kvöldstund við bóklestur og ýmst spjall. Stelpurnar sofandi: Sú eldri á grænt eyra en hin á grasserandi. Svo við hjónin skiptumst á um að sitja yfir þeirri yngri heimavið í dag.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com