<$BlogRSDUrl$>

03 júní 2005


Ný íslensk sjónvarpsstjarna er fædd.

Ég keypti Moggann í gær á leið heim úr vinnu. Rak augun í viðtal við stelpuskjátu sem nefnist Silvía Nótt, og sá fljótt að þarna færi greinilega mikill talent sem vert væri að gefa gaum. Og ekki varð hrifning mín minni í gærkveldi, þegar hún debútteraði með þáttinn sinn, Sjáumst með Silvíu Nótt, á Skjá einum. Stúlkan sú er augljóslega fædd til að vera í sjónvarpi. Myndavélin gælir við hana. Og öfugt. Hæfileikar hennar til að ná góðu sambandi við viðmælendur sína og draga fram það besta í þeim eru aðdáunarverðir - sjálfur Ágúst Ólafur ("... hjá Vinstri-grænum, ógeðslega klár ...") varð að smjöri í höndum hennar. Hún er greinilega ekki feimin við að kafa ofan í myrkviði undirheima Reykjavíkur (les: Kolaportið, "... fullt af ógeðslegu fólki ...") í leit sinni að kýlum til að stinga. Og heimspekilegar hugleiðingar hennar í innskotum milli atriða gerðu mig höggdofa. Hvar væri ég til dæmis í dag, ef konan mín hefði verið búin að kynna sér speki Silvíu Nætur þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir henni? Hvað ef hún hefði gert sér ljóst að strákar eru í alvörunni eins og föt? Hvað ef hún hefði haldið kassakvittuninni svo hún gæti skilað?!

Heimsmynd mín mun aldrei verða söm. Og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að sjá næsta þátt af Sjáumst með Silvíu Nótt.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com