<$BlogRSDUrl$>

13 júní 2005


Megas er lélegt ljóðskáld.

Þetta er ekki bara eitthvað sem mér finnst. Þetta er staðreynd.

Tökum dæmi.

Eitthvert ástsælasta kvæði Megasar er um Jónas Hallgrímsson, og er af hans fyrstu og samnefndu plötu, ef minnið svíkur mig ekki. Þetta ljóð ku vera í miklu uppáhaldi hjá mörgum, og hefur það vissulega með sér að þar er sparkað allhressilega í punginn á mýtunni; dregin er upp öllu ógeðfelldari mynd af þjóðskáldinu en broddborgurum finnst þægilegt, þeim sem vitna í Jónas á tyllidögum íslenskrar tungu.

Gott og vel. Framtakið má þykja skemmtilegt og sniðugt, og hugmyndin gerir sig skemmtilega í dægurlagatexta á þrjátíu ára gamalli vínylplötu. En þetta er nú dáldið klénn kveðskapur:

Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas
og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu.
Mamma komdu ekki nálægt með nefið þitt fína.
Það er nálykt af honum, þú gætir fengið klígju.


Sá sem prófar að lesa þetta upphátt, án gítarundirleiksins, hann hlýtur að taka eftir því hvað rímið milli annars og fjórða vísuorðs gerir sig hörmulega. Áherslan sem verður að leggja í "BrasilÍÍÍu" þegar sungið er verður enn kauðskari en ella þegar ljóðið er mælt af munni fram. Ljóðlínan fellur um sjálfa sig.

Þetta er kvæði sem margir myndu eflaust tína til sem dæmi um það að Megas væri gott ljóðskáld. En það er það ekki. Og hann er það nú varla heldur. Þetta er ofsalega sniðugt og svona. Og eflaust fyndið að hlusta á sönginn í partíum í denn. En ekki merkileg ljóðlist, er það nokkuð?

Nú er þetta er maðurinn sem gerði Bubba að stuðla- og höfuðstafanotandi söngvaskáldi. Þjóðin getur þakkað honum fyrir það (*hóst*). En kannski þarf nú sosum engan snilling í fræðunum til að kenna vinum sínum hvað sé rangt við að ríma "þér" við "með."

Bara svona sem dæmi.

Ég hef heyrt einhverja halda því á lofti að þeim þyki Megas ekki neitt sérstakur lagasmiður; það séu ljóðin sem geri hann að Listamanni. Ég myndi vilja halda fram hinu gagnstæða: Ef ekki væri fyrir lagasmíðarnar, þá þætti hann ekki par merkilegt ljóðskáld. Íslenska þjóðin getur óskað sjálfri sér til hamingju með það að hafa veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2000 manni sem hefur unnið það helst sér til ágætis að geta spilað á gítar.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com