<$BlogRSDUrl$>

01 júní 2005


Ég gekk yfir Vatnsmýrina eftir vinnu í gær, til að taka strætó við Félagsstofnun Stúdenta. Þar sem ég var að kjaga eftir skeljasandsslóða við Hringbrautina keyrði framhjá mér pikköppbíll með tveimur vegavinnumönnum. Þeir voru afskaplega verktakalegir tilsýndar. Ekki nóg með það, heldur fékk ég ekki betur séð en sjálfur Bjössi bassi sæti þarna í farþegasætinu (eða keyrði hann kannski? - ég sá hann ekki nema í sjónhendingu, þegar ég leit upp úr bókinni). Og eitt örlítið augnablik leið mér eins og ég væri á gangi í Borgarnesi, sem er mjög skrýtið, þar sem ég hef aldrei átt þar heima, þótt mig rámi reyndar í að hann Bjössi hafi unnið þar eitthvað í vegagerðinni fyrir mörgum árum, þegar konan mín var yngismær í Nesinu.

Mér leið dálítið eins og ég væri með deisjavú, nema akkúrat öfugt. Mér fannst eins og ég væri að upplifa eitthvað sem einhver annar hefði upplifað einhvern tímann áður. Og ég hafði ekki hugmynd um hvað ætti að gerast næst. Enda gerðist sosum ekkert: bíllinn ók hjá og ég hélt áfram að lesa á leið minni út á stoppistöð.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com