<$BlogRSDUrl$>

23 júní 2005


Eftir minn síðasta póst rifjuðust upp fyrir mér varnaðarorðin, að maður skyldi æ vera vakandi yfir ofnotkun á uppáhaldsorðum og dálætisfrösum. Ég tók nefnilega eftir því að ég var búinn að nota orðið vitaskuld í misgáfulegum samhengjum í síðustu þremur færslum.

Sem gerir þessa að þeirri fjórðu í röð.

Jæja, nú verð ég að fara að passa mig á þessu. Nema ég leggi upp í vitaskuldarmaraðon og sjái hversu lengi ég held út að troða því inn í færslurnar mínar...

- Hvaðan kom hún eiginlega þessi apóstrófa? Ég hef aldrei gert mikið af því að nota svoleiðislagað. Hvað heitir hún eiginlega á íslensku? ... Þrípunktur?

Annað í fréttum er það að ég er hreint afskaplega hrifinn af alaskalúpínunni sem umvefur holtin sem við keyrum yfir á leið okkar að heiman upp á Vesturlandsveg á hverjum virkum morgni.

Alaskalúpínan er fallegt blóm og gagnlegt. Lifandi, ljóstillífandi og niturbindandi þjóðráð.

Nú er löngu búið að yrkja hin fegurstu ljóð um brekkusóley og eyrarrós. Afhverju er ekkert skáldið búið að taka sig til og yrkja óð um alaskalúpínuna?

Mér er minnisstætt þegar ég vann um sumar sem fötu- og línumaður á Norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar fyrir allmörgum árum og arkaði upp heiðarnar við ónefnda á í Húnaþingi með forstöðumanninum.

"Sjáðu hvað þetta er alltsaman snautt hérna," sagði yfirmaður minn og göngufélagi og bandaði hendi yfir flögin og mosaþemburnar með stöku geldingahnappi og lambagrasaþúfu. "Hugsaðu þér hversu miklu meira líf væri í jarðveginum ef einhver tæki sig til og plantaði lúpínu hérna upp eftir öllu. Og hugsaðu þér muninn fyrir ána maður - það þrífst varla neitt í þessari hörmung, þessari rennandi eyðimörk."

Og ég tek bara undir með honum: Skítt með verndun óspjallaðrar náttúru - hún er víðasthvar óbyrja hvort eð er. Pöntum okkur frekar lúpínu á línuna.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com