<$BlogRSDUrl$>

17 maí 2005


Vorum fyrir norðan um helgina og sáum þar spekingaþáttinn á laugardagskvöldið. Litlu munaði reyndar að við misstum af honum, þar sem maður var orðinn of fastur í því að fyrst þyrfti að drepa tímann við eitthvað annað meðan Gísli Marteinn og Spaugstofan lykju sér af. Þó stilltum við okkur inn rétt í þann mund sem byrjað var að fjalla um breska lagið, svo þetta slapp fyrir horn allt saman.

Breska lagið já. Hvílík hörmung. Hugmyndin er sosum góð: fá girnilega krakka til að skekja sig undir nýmóðins bhangra-takti. Og það besta sem ég get sagt um flutninginn er að mér sýndist hún Javine svona nokkurn veginn halda takti. Bara verst að hún gat engan veginn haldið lagi. Hvað þá haldið fötum - það var einna helst þegar geirvartan á henni hoppaði upp úr kjólgopanum um miðbikið sem eitthvað við númerið got ready to "Touch my fire." Ég mun horfa af athygli á flutninginn á laugardagskvöldið. En ef þetta verður ekki alger endurtekning á Jemini-hrakförunum, þá þykir mér allavega ólíklegt að Stóra-Bretland ríði hneggjandi Flosa Ólafssyni frá keppninni í ár.

Maltneska númerið fær prik hjá mér fyrir málmstautinn. Auk þess sem hún Chiara getur sosum sungið stelpan. En mikið óskaplega var lagið leiðinlegt (og ef ekki stolið, þá uppælt og endurunnið). Samt held ég að því eigi eftir að farnast ágætlega - það virðist alveg sama hvaða sveppasýkta hrat Malta sendir í Evróvisjón, þeim farnast vanalega ágætlega án minna heillaóska.

Vanalegast hef ég verið hrifinn af tyrknesku evróvisjónlögunum, svona frekar en hitt. En út af vananum bregður í þetta skiptið: hún Gülseren (Gulla Sörensen?) gerði ekki neitt fyrir mig. Þetta er kjörið dæmi um það að það er ekki nóg að vera með etnísku tilburðina, trumburnar og magadansinn á hreinu. Það er allt til einskis ef laginu er ekki viðbjargandi til að byrja með. Ekki einusinni þótt heilalausum viðlagsfrasa sé fleygt með oní kaupið. "Rimi rimi ley?!" Komm on maður.

Albanska framlagið var ekki alslæmt. Það er náttúrulega til mikils mælst að fylla útí skóna hennar Ansésu frá því í fyrra. Og hún Ledína Celo nær rétt svo að tylla tánum oní hælkappann. Lagið er að vísu ekkert alltof eftirminnilegt, og fer á sama reikning og ég talaði um í tengslum við tyrkneska framlagið. En þó er auðveldara að kaupa sig inná gleðina í þessu öllu saman, og fiðlustelpurnar í snípsíðu blúndugardínunum gera mikið fyrir flutninginn.

Það kemur að þeim tímapunkti í lífi hvers manns að hann fær upp í kok á öllum þessum etnísku dansnauðgunum í Evróvisjón, með sínum sveittu loðinbörðum, glimmerklæddu gassafrenjum og frussandi vatni meðan húðirnar eru rassskelltar. Nú er ég sennilega meira fyrir þjóðlega danstakta en næsti meðalmaður. En meðan Konstantínos hristi á sér bossann og gaulaði "Éla Éla" fékk ég bara nóg. Ég afbar ekki meir, ekki meir.

Þetta er ástæðan á drættinum á fyrstu færslu minni eftir helgi: ég varð að slá þetta inn með annarri hendi eftir að hafa nagað hina af mér við olnboga undir þessum kýpverska hryllingi. Blessunarlega geri ég ráð fyrir að hún verði vaxin aftur fyrir morgundaginn, svo frekari tafir ættu ekki að verða á Evróvisjónbloggfærslum að sinni. Annar skammtur úrslitakvöldsins kemur á morgun, og sá síðastisísti á fimmtudag. Það verður ekki seinna vænna, enda undanúrslitin þá um kvöldið, og föstudagurinn mun fara í samantekt eftir það og lokaundirbúning fyrir úrslitin.

Fullt að frétta úr daglega lífinu, en það verður að sitja á hakanum að tala um það, enda miklu meira gaman að blogga um hluti sem skipta engu máli.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com