<$BlogRSDUrl$>

19 maí 2005


Vitiði hvað ég er heppinn? Ég man ekki tómatsósulagið, þetta sem tröllreið öldum ljósvakans fyrir tveimur árum. Ekki misskilja mig: ég man alveg eftir því, þaðvillsegja, að það var mjög vinsælt, einhverra hluta vegna. En ég man ekki hvernig það var. Þó rámar mig í að það hafi verið eitthvað svipað spænska evróvisjónlaginu í ár, því með systrunum í Son de sol. Þær fara ekkert tiltakanlega í taugarnar á mér - það er í laginu sól og hiti og gott skap og kæruleysi. Meinlaust lag þykir mér, sem á eflaust eftir að standa sig skammlaust á sviði og í stigagjöf á laugardagskvöldið.

Nú hef ég ekkert á móti strákaböndum, svona þannig. Ég á meiraðsegja Greatest Hits diskinn með Take That - keypti hann af fúsum og frjálsum vilja og hlusta stundum á hann ótilneyddur. En þau strákabönd sem villast inn í Evróvisjónkeppnina finnst mér upptilhópa ömurleg. Nema reyndar júgóslavnesku guttarnir í ár, sem er ekki nóg með að gætu allir verið veggspjaldadúkkur fyrir herralínuna frá No Name Cosmetics (ef hún væri til), heldur syngja bara alveghreint ágætt lag. Kannski er það symfóníska útfærslan. Kannski er það fiðlusólóið sem einn þeirra tekur um miðbikið (vá! hann kann í alvörunni á hljóðfæri!). Kannski er það 7/4 takturinn. Mér finnst bara allt við þetta lag hreint afskaplega geðþekkt.

Sem er meira en ég get sagt um sænska framlagið. Kannski ég hafi sem fæst orð um það og skrúfi úrdráttinn upp í ellefu: mér finnst hann Martin Stenmarck varla vera með eitt af skemmtilegustu lögunum í keppninni. Og ég ræð fólki frá að veðja aleigunni á Las Vegas í ár.

Mér finnst úkraínska lagið dálítið sætt. Sætt en mislukkað. Þeir eru svo sannarlega jollý, strákarnir í Greenjolly. Og grænir, greyin. Ojæja. Þeir geta þá alltaf fagnað frelsinu, hvað sem líður árangrinum í Evróvisjón.

Ég er dálítið skotinn í þýska laginu í ár. Mér skilst að sama teymi standi á bakvið þýska númerið og það svissneska. Hér tekst sæmilega upp einnig, en þetta er meira svona út í eitís leðurklætt þýskt M.O.R. svuntuþeysapopp, meðan Vanilluninjurnar voru meira útí Heart-systur og Suzi Quatro. Mér varð hugsað til þýðversku stallsystranna Söndru og Nenu, frá því forðum daga þegar tónlist var góð, þótt hún væri léleg. Hún Gracia stendur alveg undir nafni, fyrir mína parta.

Næst á dagskrá er svo að njóta kvöldsins í kvöld. Engar frekari áhyggjur af laugardagskvöldinu fyrr en á morgun.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com