<$BlogRSDUrl$>

02 maí 2005


Við tókum okkur langt kvöldverðarhlé frá flutningum á laugardagskvöldið til að horfa á annan skammtinn af Evróvisjónlögum. Í það heila tekið leist mér mun betur á þennan pakka en þann síðasta - það lifnar yfir keppninni um miðbikið.

Hún "Selma okkar" verður sú tíunda í röðinni, og ef ég á að segja alveg eins og er, þá er ég bara töluvert bjartsýnn fyrir hennar hönd. Það má eitthvað mikið klikka ef hún á ekki eftir að fljúga inn í úrslitin.

Meðal annarra orða.

Eftir því sem ég sé þetta myndband við íslenska lagið oftar fer ég smám saman að botna betur í því. Strax við frumflutning gerði ég mér ljóst að þetta væri einhver svona "ástarörvar-í-hjarta" pæling, en ég fékk hana einhvern veginn ekki alveg til að ganga upp. Af hverju var hún alltaf að skjóta úr þessari löngu fjarlægð? Af hverju þurfti hún að brölta yfir hús- og bílþök til þess að komast í glatað færi við skotmarkið? Af hverju var hún svona glötuð skytta? Og, mikilvægasta spurningin af öllum: Af hverju tók nefnt skotmark ekki eftir því þegar örvar flugu tvist og bast í kring, hvað þá þegar þær mölvuðu glugga- og bílrúður með tilheyrandi látum?

Svo small þetta þarna á laugardagskvöldið (svona er maður tregur): Þetta er vitaskuld allegóría um það hve hin venjulega kona er glötuð í þeirri skotíþrótt sem það er að ná sér í þann karlmann sem hana langar.

Karlmenn eru, upp til hópa, einfaldar skepnur. Þeir taka mjög illa eftir nettum undirfótargjöfum. Þeir pæla voða lítið í því hver heilsar þeim á förnum vegi. Hvort þetta eða hitt skóparið passar betur við dragtina. Hverjar verða að gera hvað og hvar um næstu helgi. Usw. Allir þessir litlu hlutir, þessi fyrirhafnarmiklu "settöpp" fyrir skot úr fjarlægð (með tilheyrandi príli í glatað skotfæri), þau bara virka ekki. Það á ekkert að vera að dansa í kringum þetta neitt; það eina sem gengur er að stökkva bara beint í veg fyrir kauða og láta vaða í brjóstið á honum. Það er það eina sem þeir taka eftir helvískir.

(...cue Högni sjúkraþjálfari...)

Enda sást það á svipnum á stráknum í vídeóinu að loksins tókst þetta hjá henni Selmu fyrir rest: Lokasvipurinn á honum með örina í brjóstinu er hreinn og ómengaður ástarbrími. Eða eitthvað.

Og læt ég það duga í dag.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com