<$BlogRSDUrl$>

12 maí 2005


Og hvernig fer þetta svo alltsaman á fimmtudagskvöldinu eftir viku?

Ég held að fimm lög séu tiltölulega örugg með að komast áfram. Eða í það minnsta þætti mér það alveghreint skelfilegur og óskiljanlegur missir ef svo mikið sem eitt þeirra yrði útundan. Af minni alkunnu svartsýni þykir mér ekkert voðalega líklegt að hún Selma reddi okkur gestgjafahlutverkinu að ári. En ég held við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvort hún kemst á úrslitakvöldið - þetta er tiltölulega skotheld formúla hjá henni. Ungverjaland og Króatía fara líka örugga formúluleið og tefla bæði fram þjóðlegu og geðþekku poppi með viðlögum sem er auðvelt að fá á heilann. Norsku ellibelgirnir í Wig Wam taka þetta á kraftinum og leikgleðinni - þeir eru Alf Poier ársins. Og (þetta er kannski langsóttasta giskið) moldversku strákarnir í Stobb sí Stúbb kalla ekki allt ömmu sína nema það berji bumbur, og eru bara of skemmtilega hallærislegir til að sitja eftir. Þeir verða Albanía ársins.

Þá vandast málið örlítið. Útlitið er ekki alveg eins bjart fyrir pólsku sígaunana, en ég vona það besta fyrir þeirra hönd - mér finnst þeir eiga það skilið. Mér finnst Ómar hinn slóvenski ekki eins afleitur og sumum öðrum, og tel hann eiga góðan séns í topp tíu, ekki hvað síst með balkanblokkina á bakvið sig. Það er pláss fyrir eitt (og aðeins eitt) eistneskt stúlknaband, og ég held að það verði Vanilla Ninja með svissneska lagið sitt (frekar en Suntribe-sorinn). Það er rokk í þeim, stelpunum, og kominn tími til eftir langt hlé að fá aftur á sviðið gerðarlega söngkonu með málmstaut í meltingarveginum. Svo fylli ég topp tíu með lettneska friðardúóinu og brjóstunum á hinni rúmensku Luminitu Anghel. Hvorugt lagið er í neitt sérstöku uppáhaldi hjá mér; mér finnst þau bara sigurstranglegust af þeim sem eru það ekki.

Ef einhver af ofangreindum löndum komast ekki áfram, þá er tónleysan frá Hvíta-Rússlandi líkleg til að skjóta sér inn (og þá líklegast á kostnað Pólverja), þótt ekki væri nema fyrir glæpsamlega smitandi viðlag. Möguleikar annarra landa eru frá því að vera litlir, en ánægjulegir ef af yrði (Danmörk, Austurríki), gegnum hverjum-er-ekki-sama kategóríuna (Búlgaría, Finnland, Makedónía, Mónakó, Holland) yfir í það að vera of skelfilegir til að hugsa til enda (Írland og... öhh, já. Írland) og þaðan útí það að fyrr mundi botnfrjósa í helvíti (Andorra, Belgía, Ísrael, Portúgal, Litháen).

Og læt ég það duga um þessi mál fram í næstu viku.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com