<$BlogRSDUrl$>

09 maí 2005


Jæja já. Þá liggur fyrir hver samkeppnin verður á undanúrslitakvöldinu. Ekki get ég sagt að ég skjálfi á beinunum fyrir hönd hennar "Selmu okkar."

Mikið hefur verið rætt um makedóníska heilkennið undanfarin ár: Þá vægu geðröskun sem hlýst af því að verða of samdauna Evróvisjónkeppninni, þannig að manni þykir sem öll lögin séu góð, og jafnvel sigurstrangleg. Meir að segja lagið frá Makedóníu. Í ár skal ég sko hundur heita ef ég spái makedónska laginu "Make my day" einhverju slíku. Þetta er afspyrnuvont Evrórusl sem er ekki einu sinni viðbjargandi með silfurklæddum graðkerlingum í snípsíðum pilsum. Myndbandið var reyndar býsna fyndið á að horfa, sérstaklega sú súrrealíska upplifun að hlusta á enska textann á sándtrakkinu meðan tónleikaperformansinn var greinilega á móðurmálinu. Ilty Ebni. Hann Harrý karlinn orðaði það best, og rétt að gefa honum lokaorðin um hann Martin Vucic: "Go ahead, punk."

Þrátt fyrir öll rök í alheiminum, þá er ég dáldið skotinn í laginu frá Andorra. Já alltílæ, lagið er afskaplega óinteressant. Auk þess sem Andorra virðist hafa spanderað einu söngkonunni undir fertugu í gervöllum dalnum á keppnina í fyrra. Og Marian van de Wal myndi nú seint vinna fegurðarsamkeppni eldri borgara (kannski The Swan, ég veit það ekki - horfi ekki á þá). En ég held að "skiptir-ekki-máli-að-vinna-heldur-að-vera-með" ungmennafélagsandinn í því hvernig andorrska (?) þjóðin nálgast keppnina sé að hlaupa með mig í gönur. Eða það að sungið er á frummálinu katalónsku. Já, ég skil alla þá sem segja að hver lína hljómi sem meiri tungubrjótur en sú næsta á undan. En mér finnst þetta bara rosalega flott mál. Með öllum sínum andlitsgeiflum og kokskrolluðu errum. Samt, lets feis itt, þetta verður í allraneðstu sætunum, hvað sem ég segi.

Keppnin í ár skartar ekki einni, heldur tveimur eistneskum stúlknahljómsveitum. Og sú skárri þeirra keppir fyrir Sviss. Vanilla Ninja er tvímælalaust svalasta hljómsveitarnafnið í keppninni í ár, og fyrir það skora þær telpurnar strax slatta hjá mér. Og það er eitthvað við flutninginn, eins og hann leit út á laugardagskvöldið, sem fær mig til að finnast sem þetta sé minna "manúfaktúrerað" en gengur og gerist með unglingahljómsveitirnar í dag - mér fannst þær meir að segja svolítið flottar. Það er dálítið rokk í því hvernig þær bera sig, stelpurnar. Lagið er kannski ekki meira en skítsæmilegt, en það sat þó í skallanum á mér eftir fyrstu hlustun. Ég spái því að það sé pláss fyrir eitt og aðeins eitt eistneskt stúlknaband í úrslitunum í ár. Og að það verði ekki frá Eistlandi.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com