<$BlogRSDUrl$>

20 maí 2005


Jæja, þá fer þessu að ljúka (það styttist í þessu Ágúst minn). Við hjónin vorum á fullu við að sprunguhreinsa og sparsla í nýju íbúðinni í gærkvöldi, og horfðum á undanúrslitin með öðru auganu í tólftommusjónvarpinu sem við erum með í láni frá tengdó. Svo athyglin á atburðum kvöldsins var kannski ekki alveg hundrað prósent.

En hver verður nú samkeppnin um fyrsta sætið við hana Selmu annað kvöld?

Gríska laginu er spáð mikilli velgengni í ár, og eftir að hafa séð vídeóið nokkrum sinnum skil ég það svosem alveg: Þarna kraumar hitinn sem er svo sárlega fjarverandi úr laginu frá Kýpur. Mér þykir lagið ósköp ómerkilegt, svona útaffyrirsig, en hún Helena Paparizou og meðreiðarteymið gætu samt gert heilmikið fyrir það á sviði. Sjáum til.

Rússneska lagið finnst mér nett hallærislegt í ár, en á krúttlegri máta en hörmungin sem kom frá þeim í fyrra. Það skásta við hana Natölju er viðlagið, en þegar ég heyri bassann í því fer ég alltaf að raula "Smells like teen spirit."

Hallærislegheitin ríða líka röftum í laginu frá Bosníu/Hersegóvínu, en krúttfaktorinn er kýldur upp til jafns. Mér finnst Abba-stælingin hjá Feminnem ljómandi skemmtileg, og dittó um innræktuðu Evróvisjón-vísanirnar. Hvernig er hægt að hafa nokkuð á móti svonalöguðu. Svo er ein þeirra tvífari hennar Regínu bakraddasöngkonu.

Ég þoli ekki franskar ballöður. Þær voru tvær á undanúrslitunum (frá Belgíu og Mónakó) og því ágætt að fá í staðinn meinlaust franskt gellupopp á úrslitakvöldinu. Mér finnst þetta ágætt lag hjá henni Ortal, þótt ég telji útilokað að það eigi eftir að gera neinar gloríur á úrslitakvöldinu.

Þá er ég búinn að renna yfir lögin sem debúttera á morgun. Þar við bætast Ungverjaland, Rúmenía, Noregur, Moldavía, Ísrael, Danmörk, Makedónía, Króatía, Sviss og Lettland. Skorið mitt er 70% eftir undanúrslitin: mér skjátlaðist með Slóveníu (dálítið óvænt) og Pólland (ekki eins óvænt), en í staðinn koma inn Ísrael (býsna óvænt), Danmörk (dittó) og Makedónía (hvað er í gangi hérna?!). Önnur lög stóðu sig eins og við var að búast, nema ungverska frammistaðan olli mér vonbrigðum, lettnesku strákarnir voru viðbjóðslega mikil krútt, og rúmensku krakkarnir í Lúsifer og Kerfi komu mun betur út en ég átti von á: slípirokkasólóið var býsna svalt á sviðinu.

Svo hvernig fer þetta? Keppnin er mun opnari en í fyrra, þar sem nánast var bókað að Rúslana myndi taka þetta. Hjarta mitt er með Sviss, Noregi, Moldavíu og já, jafnvel Þýskalandi (raðað eftir líkindum). Það vantar meira rokk í keppnina, svo öll viðleitni í þá veru væri vel þegin. Annars gæti hvað sem er unnið þetta, nema makedónska lagið. Grikkland og Króatía eru sérdeilis sterkir kandídatar. Svo ef ég tíni til Spán, S&S, Rúmeníu og Lettland, þá er ég kominn með spá fyrir topp tíu.

Svo vonar maður náttúrulega innst inni að Selma taki þetta bara. Það gæti gerst, á góðum degi.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com