<$BlogRSDUrl$>

24 maí 2005


Já það fór ekki svo fyrir rest að ég kæmist ekki á tónleikana með Huun Huur Tu. Við komum að norðan undir kvöldmat á annan í hvítasunnu, svo ég hafði góðan tíma til að renna niður á Nasa og rifja upp gömul kynni við þá, strákana. Tónleikarnir voru ágætir, þótt þeir hafi ekki jafnast á við minninguna um það þegar ég sá þá troða upp sumarið 1996 með frægasta kvennakór Búlgaríu við Ales Stenar á Skáni. Þá var gaman: veðrið lék við gesti á þessum útitónleikum, sólin skein framan af og léttur landsynningur þegar kvöldaði. Ég mætti á staðinn vegna fyrri hrifningar minnar á kvennakór Ríkissjónvarpsins í Sofíu, en það voru Huun Huur Tu sem voru komu mér á óvart. Þeir voru vitaskuld góðir þarna á Nasa líka, en ég var ekki eins dáleiddur og ég var forðum daga. Þetta var meira svona... heimilislegt.

Ég keypti ljómandi góðan disk með þeim á Nasa: Altay Sayan Tandy-Uula, þar sem rétt mátulegum skammti af elektróník er skellt oní kaupið. Ég lagði ekki alveg í að kaupa teknórímixdiskinn með þeim sem var þarna líka til sölu, en þessi er búinn að vera á stöðugu rennsli í nýja bílnum okkar síðan ég keypti hann.

Við erum búin að mála allt í nýju íbúðinni, og bárum inn úr gámnum á sunnudagskvöldið var. Þá er bara eftir að skipta um gólfefni í eldhúsinu og kaupa nýju kojurnar fyrir stelpurnar, og allt fer að verða til reiðu fyrir að flytja inn. Ætli það verði ekki á fimmtudaginn?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com