<$BlogRSDUrl$>

06 maí 2005


ÉG Á AFMÆLI Í DAG!

Og það ekkert smá. Í tilefni af því að ég fæddist þann sjötta janúar árið 1972 og er því nákvæmlega aldarþriðjungsgamall í dag, eða þrjátíu og þriggja og eins þriðja ára, þá skrapp ég í hádeginu og keypti í dálitla afmælisveislu handa vinnufélögunum með kaffinu. Alveg síðan ég hélt upp á tuttugu og fimm ára, eða aldarfjórðungsafmælið, hefur mig langað til að gera eitthvað sérstakt þennan dag. Lengi framan af langaði mig helst til að bjóða í risastóra veislu, með leigðum sal og boðskortum og alles. En svo settu flutningarnir strik í reikninginn, og ég varð að skala þetta aðeins niður. Við munum þó eflaust halda sameiginlegt innflutnings- og afmælispartí við fyrsta hentuga tækifæri, fyrir vini og vandamenn.

Talandi um flutninga: Fyrri hálfleik er lokið, við erum orðin lögformlega heimilislaust gámafólk, og lifum inni á gafli hjá tengdaforeldrum mínum næstu tvær vikurnar. Í tilefni dagsins í dag, þess að flutningum var lokið og að við höfum núna barnapíur uppá hvurt einasta kvöld, þá fórum við í bíó í gærkveldi með vinum okkar, á Hitchhiker's Guide to the Galaxy (mig langar að þýða þetta, en það er eitthvað stirt við Vegahandbók puttaferðalangsins um Vetrarbrautina). Hún er í þremur orðum sagt alveg hreint ágæt, og gerir bókinni sóma til. Frúin hafði ekki lesið bókina (eða byrjað einhvern tíma og fundist óspennandi) en skemmti sér hið allrabesta, eins og við öll.

Ég var um daginn búinn að fá leið á hringitóninum sem ég hafði notað frá upphafi vega: Spinal Meningitis (got me down), eftir sprelligosana í Ween, og gerði í framhaldinu tilraunir með nokkur Pixies-gítarsóló í staðinn. Ekkert þeirra vakti stormandi lukku hjá samferðafólkinu, og sjálfum þótti mér gemsinn vandræðalega frenetískur þegar hann fór í gang, miðað við súbversífa djókið í fyrri hringitóni. Svo hitti ég á hið eina rétta þegar ég prófaði flautusólóið í þessum gullvæga seventís diskómola. Hann Van McCoy karlinn átti einmitt sama afmælisdag og ég, og hlýtur að vera svalasti frægi maðurinn sem deilir með mér afmæli.

En ekki í dag samt. Aldarþriðjungsafmælið í dag á ég einn. Þess má að lokum geta að ég kann þurrkuntunum á Fréttablaðinu litlar þakkir (les: skammir í brók) fyrir að neita fullum fretum að birta tilkynningu um þetta merka stórafmæli mitt í Afmælisdálkinum sínum. Og ég sem var meiraðsegja búinn að semja tilkynninguna og alltsaman:

Hjörvar Pétursson, líffræðingur í Reykjavík, er aldarþriðjungsgamall í dag. Hann verður að heiman á afmælisdaginn.

Rúðustrikuðu rottuhalar. Annars má geta þess að þetta er í fyrsta skipti sem ég læt þess opinskátt getið nákvæmlega hver ég er á þessu bloggi. Það hefur í sjálfu sér aldrei verið leyndarmál, og eflaust á flestra vitorði. En nú á það sumsé aldrei að þurfa að fara á milli mála lengur. Þetta er ég.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com