<$BlogRSDUrl$>

11 maí 2005


Ekki var ég neitt voðalega hrifinn af Stoppinu hans Ómars Nafla frá Slóveníu. Ekki svona framan af (hvað er annars málið með allt þetta vatn í myndböndunum í ár? Já, ég veit, það þýðir bara eitt. En samt, öllu má nú ofgera...). En mér fannst það nú snöggtum skána í seinni helmingnum, þegar Muse-gítarriffið kikkaði inn í viðlaginu. Síðan dalaði álitið ögn aftur þegar feita kerlingin fór að garga yfir honum Ómari í blárestina. Í það heila tekið er ég beggja blands í áliti mínu, þótt eftir standi þetta: Mér þótti þetta ekki alslæmt. Og það eru mörg lög önnur sem mér þætti verra að sjá fljóta yfir á laugardagskvöldið.

Baaauuuninn maður. Stadigt ligeglad, hva? Jújú, hann Jakob Sveistrúp er ofsasætur strákur, og lagið óskaplega geðþekkt, með sínum netta sumarreggípoppfíling (ég fer alltaf að raula Sunshine Reggae þegar ég heyri það, ef einhver man eftir því blasti úr fortíðinni). En við Kobbi erum samt ekki alveg að tala saman (svo); það er eitthvað í beinunum á mér sem segir að Danir sitji eftir með sárt ennið í ár, þrátt fyrir garanteruð tíu eða tólf stig frá mörlandanum. Fílgúdd-elementið er ekki alveg nógu sterkt til að vega það mikið upp á móti líeglað-faktornum að einhverjir nenni að kjósa þá. Farvel, min ven, farvel.

Þá er bara komið að lokalaginu. Aldrei hef ég verið hrifinn af pólsku lögunum í Evróvisjón. Ekki fyrr en nú. Sígaunapolkinn þeirra Ívans og Delfinns er svo svakalega út úr kú miðað við allt annað sem er í gangi í þessari keppni að ég hreinlega get ekki annað en hrifist af því. Mér finnst þeir mjög flottir strákarnir, og vona svo sannarlega að pólska lagið komist áfram í úrslitakeppnina. Meiri rauðar skyrtur með hárlausum bringum! Meiri támjóa dansskó og svartar buxur með útvíkkandi skálmum! Meiri greddu! Meiri ástríður!

Ekki veit ég hvort Pólverjar eru jafn fordómafullir gagnvart sígaunum og grannar þeirra í Tékklandi, þarsem annarhver maður er sannfærður um það að bévítans tatararnir sé eintómur óþjóðalýður að náttúru og upplagi sem steli öllu steini léttara ef af þeim sé litið. Ég segi það fyrir mig, ef svo ólíklega vildi til að pólsku sígaunarnir stælu sigrinum í ár, þá yrði ég hæstánægður.

Og þannig var það nú. Sennilega er best að ég komi með einhverja lokasamantekt og spádóma fyrir forkeppnina einhverntíma fyrir helgina (ásamt með kannski einhverjum tepokum úr daglega lífinu), svo ég hafi tímann fyrir mér með það að rýna í lögin sem debúttera á úrslitakvöldinu í byrjun næstu viku. Sjáum hvað setur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com