<$BlogRSDUrl$>

04 maí 2005


Brjóst.

Það er það sem situr hvað helst eftir af rúmenska númerinu, brjóstin á Lúminítu Anghel. Púff. Unglingahljómsveitin Sistem lék undir á nýmóðins svuntuþeysa og hljóðsmala. Ég er búinn að brenna mig á því einu sinni áður að afskrifa Rúmeníu fyrirfram, svo ég ætti kannski að spara stóru orðin. En ég get ekki sagt að ég hafi verið yfir mig impóneraður. Evróruslið gengur víst samt alltaf jafn vel í pöpulinn. Og teknóið ratar til sinna (ég dansa alltaf færri og færri takta...).

Húrra fyrir þeim sem syngja á óskiljanlegu tungumáli! Er til flottari titill á lagi en "Forogj világ?" Nema kannski "Hölgyem, felkérhetem egy táncra?" Eða "Megnézed a bélyeggyûjteményem?" Hvað um það, þá var ég yfir mig hrifinn af ungverska númerinu (þrátt fyrir að etnópoppnálgunin jaðraði á köflum við nábít af sigurlaginu hennar Rúslönu í fyrra). Atriðið stefnir í að geta verið í svalari kantinum, og lagið sjálft er bara hreint býsna settlegt, með sínum dynjandi rytmum og pentatónísku vísunum í þjóðlagastemminguna, þrátt fyrir að nanana-ið eigi eflaust eftir að verða dáldið þreytandi við síendurtekna hlustun. Þetta er eitt af mínum allramestu uppáhaldslögum í ár, svo lengi sem krakkarnir í NOX standa við að syngja það á ungversku. Annað væri vitaskuld skandall.

Sem er annað en hægt er að segja um frændur þeirra Finna. Eða, um Geir Rönning öllu heldur, sem er ekki einu sinni Finni, heldur bara sjálfhælinn Nojaraskratti og hrukkudýr par excellence. Geiri karlinn syngur væmna, asnalega og auðgleymda melódíu með afdönkuðum friðartexta og obblígat hækkun um hálfan. Út af sviðinu með þig þarna, ljóti strákur. Skottastu aftur oní olíuborholuna sem þú skreiðst uppúr.

Og látum við það gott heita af Evróvisjónsmálum þessa vikuna. Á föstudaginn verða mikil tímamót í lífi mínu, og mun ég annars vegar blogga um þau, og hins vegar segja af nýjustu tíðindum úr daglega lífinu.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com