<$BlogRSDUrl$>

29 apríl 2005


Nú er ég búinn að gera tvær tilraunir til að hlusta á ísraelska Evróvisjónlagið í ár, og það bara situr ekkert eftir. Shtúmp. Naða naða naða. Söngkonan er ósköp snoppufríð, og getur nokkurn veginn haldið lagi, en lagið heldur ekki vatni. Það er í svona tilvikum sem er afsakanlegt að syngja á ensku: ef lagið er óintressant, þá er alltaf hægt að endurtaka nógu banal frasa nógu oft í viðlaginu, og þá kannski festist hann í hausnum á nógu mörgum enskuskiljandi sálum. En ég man ekki neitt, ekki neitt, nema það að þetta var sosum sæt stelpa, og í lélegri upplausninni á internet-myndbandinu var erfitt að greina nákvæmlega hversu fleginn húðlitaði kjóllinn hennar var. Það væri kannski besti sénsinn fyrir hana Sirrí Mæm-on úr þessu: að taka bara Mandó á þetta (sbr. gríska lagið 2003). Nógu erfitt á Ísrael uppdráttar í keppninni samt.

Item að syngja á ensku: Það er þá allavega nokkuð sem hin hvít-rússneska Angelíka Agúrbasj gerir rétt. Ef ég vil muna lagið hennar (sem er vissulega stórt ef), þá þarf ég ekki annað en rifja upp titilinn og viðlagsopnarann (sem fölnar þó við hlið línunnar, "It's no sin, it's no crime, that I want you mine...") og júróbassinn brestur af stað í hausnum á mér: "Loooov mí túnææææææt!" Bara verst hvað hún er afleit söngkona stelpan: þetta er hreinasta hörmung.

Hin hollenska Glenna Greys má þó eiga það: hún getur sungið. Eða sonaaaa. Borið samanvið. En lagið er bara svo afspyrnuleiðinlegt.

Svo það er víst bara gult spjald á línuna. Nei andskotakornið: Rautt á hana Angelíku.

Vonandi fæ ég svo eitthvað almennilegt að kjamsa á í næsta þætti; þetta er óttaleg lognmolla búin að vera það sem af er. Það er reyndar ekkert alltof víst að ég nái að horfa á sjónvarpið annað kvöld: Helgin mun fara í að flytja út í gám, eins og áður var getið. En það verða einhver ráð.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com