<$BlogRSDUrl$>

11 apríl 2005


Ég uppgötvaði dálítið merkilegt um daginn. Nefnilega, hvaða tilgangslausa hæfileika ég er gæddur sem er ekki á færi hvers sem er:

Ég finn það á bragðinu af hnífapörum hvort það er búið að nudda þeim við álpappír.

Þetta er minn ofurmannlegi eiginleiki, mitt Superpower. Ekki slæmt, þótt ég segi sjálfur frá.

Ég hef vitað af þessu allt frá barnæsku, en aldrei fært það í tal við nokkurn mann. Ekki það að mér hafi þótt þetta neitt til að skammast sín fyrir - ég hef bara alltaf haldið að svona væru allir, að það væri ekkert skrítið við þetta.

Svo buðum við Magnúsi í mat um daginn og ég nefndi þetta í framhjáhlaupi við eitthvað.

Ég vissi ekki hvert þau ætluðu, konan mín og Magnús. Þau hlógu að mér; þeim fannst þetta svo fáránleg vitleysa. Auðvitað fyndi enginn á bragðinu hvort hnífapörin hefðu komið við álpappír eða ekki. Hvaða rugl þetta væri eiginlega í mér.

En það finnst. Ég finn það. Ég get sýnt fram á það með kontróleruðum, vísindalegum tilraunum, með yfir 95% marktækni. Það kemur af þeim nístandi, málmkennt óbragð sem fer í mínar fínustu taugar.

Ég náði nánast að sannfæra Magnús með einfaldaðri pilot-stúdíu. Aflið dugði reyndar ekki nema til 67% marktækni. En niðurstaðan var ótvíræð, ég segi það fyrir mig.

Frúin hlær samt ennþá að vitleysunni í mér.

Ætli ég sé sá eini sem er svona?

Svona lagaðir eiginleikar leynast eflaust víða og finnst mörgum fátt um: þetta sýnir bara að við erum ekki öll steypt í sama mótið. Til er fólk sem finnur bragðið af aspartam, til dæmis af Coke Light. Ég er ekki einn af þeim - ég finn sáralítinn mun á því og venjulegu kóki. Ég hef ekki hugmynd um hvernig aspartam er öðruvísi á bragðið en sykur. En ég er samt ekkert að rengja fólk sem segist finna muninn. Það væri kannski jafnvel hægt að kenna mér það, svona eins og sumir fara á rauðvínsnámskeið.

Ég ætti kannski bara að starta námskeiði í hnífaparasmökkun?
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com