<$BlogRSDUrl$>

27 apríl 2005


Það er alltaf hægt að hafa gaman að því þegar ný lönd senda sitt fyrsta framlag í Evróvisjón. Þau eiga til að vera svo skelfilega út á þekju að jafnast á við hið besta bíó. Frá seinni árum koma frumraunir Albaníu, Rúmeníu og Úkraínu strax upp í hugann. Og ef leitað er lengra aftur má benda á að ekki þarf að leita út fyrir landsteinana fyrir dæmi um det samme. Hið undarlega er að oft gefur hallærissjarminn ágætis útkomu í stigagjöfinni, þótt ekki hafi það átt við í tilviki Icy-tríósins í denn.

Sem minnir mig á.

Það er ótvíræður sjarmi yfir fyrsta framlagi Moldavíu til Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva. Og nokk fátt hallærislegt við það finnst mér, ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst þetta bara alveghreint stórskemmtilegt lag sem sker sig hressilega úr restinni. Textinn er stórfyndinn (að vísu mikinnpart vegna ofangreinds hallæris), strákarnir í Stobb sí Stúbb eru hver öðrum hressari, og flottust af öllum er amman sjálf, sú sem lemur húðirnar. Ég ætla sko rétt að vona að hún stígi á stokk í Kíev - númerið væri ekki svipur hjá sjón án hennar. Eiturgrænn áframtakki með húrrahrópum og fótastappi (Bravó! Höfundinn! Höfundinn!): Berðu bévaðar húðirnar gamla kerlingarskrukka! Berðu þær eins og þú sért amma andskotans!!!

Lettneska lagið var afskaplega sætt hjá þeim strákunum, en var alveg laust við að grípa mig. Ég veit að það er fullt af fólki þarna úti sem finnst þetta besta ballaðan í ár, og kannski er hún það: ég hef ekki heyrt öll lögin ennþá. En ég var ekkert yfir mig impóneraður. Mér leið dáldið eins og ég væri að horfa á austantjaldsbojbandútgáfu af "Rock'n'Roll Kids" viðbjóðnum sem vann fyrir Írland eitt sinn fyrir langalöngu. Einnig minnti þetta mig óþægilega á hörmungina sem kom frá Hollandi í fyrra. Og kannski situr um of í mér að ég man eftir öðrum af þessum strákum (þeim sem er eins og barnsrassútgáfa af Helga úr Íslensku Íðilkeppninni) úr "Hello from Mars" hrakförunum fyrir tveimur árum (Angel-fíaskói þeirra í Lettlandi). Gult gult gult.

Svo er það Mónakó. Hvað er hægt að segja. Afskaplega sætt sosum (bæði lagið og sprundið) og dáldið rómó að heyra svona symfóníumonsterútsetningu eins og þær voru bestar í gamladaga. En, æhj, taktu bara gult númer og farðu í röðina væna.

Ég hringlaði aftur í mottói síðunnar, svo nú er það ögn betur eigandi við það sem hæst verður á baugi hérna næstu vikurnar. Þetta er bein tilvitnun í moldóvska lagið, einn af mörgum gullmolum.

Ég verð að rifja sjálfur upp lög þeirra sem eftir eru frá síðasta laugardagskvöldi áður en ég tjái mig næst - ég er búinn að steingleyma þeim öllum. Sem segir eitthvað um frammistöðuna, finnst mér. Framtíðin er gul.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com