<$BlogRSDUrl$>

26 apríl 2005


Ekki seinna vænna að fara að byrja á þessu.

Ég var fjarri góðu gamni þegar "spekingar spjalla" þátturinn var sýndur á laugardagskvöldið var - ég var á árshátíð. Góðu heilli tók frúin herlegheitin upp fyrir mig. Sænski sjarminn á formattinu vinnur á, og ég stóð mig að því að sakna rauðu, gulu og grænu takkanna sem spekingarnir gátu valið um í fyrra. Miklu meira fútt í því en einhverri horngrýtis stigagjöf. Þess fyrir utan fannst mér innsenda efnið ekki upp á marga fiska og ef ekki væri fyrir þessa ljósu punkta sem maður lifir fyrir væri ekki upp á mikið að halda.

Nóg um það.

Ég vissi ekki hvað ég ætti að halda um austurríska lagið. Að stærstum hluta finnst mér þetta ljómandi góð hugmynd: harmónikka, alpajóðl og Týrólatrompettar er nokkuð sem er furðulegt að Austurríkismenn hafi ekki fattað að senda inn áður. Og sungið af gerðarlegri frojlæn í mjaltakonuátfitti. Hvað getur eiginlega klikkað? Jú, þetta: Hversvegna í ósköpunum syngja þau þetta á ensku?! Það er herfilegasta stílbrot sem frést hefur af norðan Alpafjalla í háa herrans tíð! Hvernig gátu þau klúðrað þessu?! Ég er hræddur um að það fari fyrir þeim eins og gamla fólkinu hennar Brýnhildar: Deyja til hægri. Og deyja til vinstri. Gulur takki (Djeeisp!).

Svo komu Lára og Lauslátungarnir frá Litháen með afskaplega óinteressant Svíapopp. Voðalega dautt númer. Rauður takki (Búúú! Útaf með dómarann!).

Og hvað er hægt að gera við Portúgal? Hvenær ætla þau að ná plottinu? Alltof mikið af ósamstæðum hlutum að gerast í þessu lagi: þetta er ofnbakaður hafragrautur með súpujurtum og afgöngum af steiktum saltfiski. Og hvusslags hallærisnafn er 2B eiginlega á grúppunni?! Ég er hræddur um að það verði Not2B fyrir þau í ár. Rauður takki.

Ekki fer þetta vel af stað. En kannski rofar til í næstu umfjöllun, þar sem rætt verður um moldóvska, lettneska og mónakóska framlagið. Og kannski ekki.

Áhugasömum (og öðrum fríkum) er svo bent á heitustu staðina fyrir keppnina í ár: Bloggið Daníels Freys og íslensku aðdáendasíðuna Helgu Hinriks, auk sjálfrar heimasíðu keppninnar (þar sem hægt er að horfa á vídeóin og hlæja að textunum) og annars evróvisjónbloggs sem ég þekki hvorki haus né sporð á þessutan.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com