<$BlogRSDUrl$>

17 mars 2005


Hlemmraunasaga - síðari hluti

Ég var sumsé nýkominn inn í hlýjuna, með það sem kallast mannaskítsglott á smettinu. Fyrir ókunnuga, þá er það náskylt því glotti sem kennt er við Sólheima í Grímsnesi, og sem ég er frægur fyrir að skarta í tíma og ótíma.

Nóg um það.

Gengur þá ekki rösklega í átt að mér einkennisklæddur eldri maður og spyr mig hvort mér hafi þótt þetta fyndið strákur, að ráðast svona á bilaðar dyrnar. Hvort ég bæri enga virðingu fyrir almannaeignum, ódannaði vandræðapésinn sem ég væri. Ég svaraði sem var, að ég hefði bara viljað komast inn í hlýjuna. Ég hefði reynt að vekja á mér athygli með því að banka á glerið (sem strangt til tekið var að færa í stílinn) og þegar þolinmæði mína hefði þrotið hefði ég gripið til eigin ráða. Þá skammaði hann mig fyrir að taka ekki mark á skiltinu sem segði að dyrnar væru bilaðar. Hann benti á skiltið, sem reyndist vera A4-blað sem á var skrifað akkúrat það, að dyrnar væru bilaðar. Þá benti ég honum á að ég hefði haft takmörkuð not af skiltinu, enda var það límt á innri dyrnar innanverðar, og var þeim einum til gagns sem voru á leið út í kuldann. Þá fussaði hann eitthvað oní kjöltuna, eflaust eitthvað um virðingarleysi ungdómsins í dag fyrir almannaeignum og sér eldra og reyndara fólki; ég greindi ekki orðaskil þar sem hann ákvað um leið að gefast upp á mér og vafraði í burtu.

Ég leit á stráklinginn sem var mér samferða inn um gættina; hann yppti öxlum og hristi hausinn yfir karlinum. Ranghvolfdi í sér augunum. Við sameinuðumst í þögulli vandlætingu á vitleysisganginum á gamla fólkinu í dag. Svo dró ég kiljureyfara upp úr vasa og tyllti mér niður í rólegheitum. Fór að bíða eftir strætó. Eftir nokkrar setningar leit ég upp og tók eftir að svo virtist sem þetta upphlaup mitt hefði haft óvæntar afleiðingar, þar sem allt í einu var fólk farið að streyma inn og út um dyrnar eins og ekkert væri, og þær opnuðust og lokuðust með ómþýðum almannaeignarskruðningum eins og þær hefðu aldrei gert neitt annað. Það var eins og bara hefði þurft að ýta þeim í gang. Einhver var búinn að rífa blaðsnepilinn af innri hurðinni.

"Hei þú," hrópaði einhver, og ég leit upp. Það var einn af úlpuklæddu innangarðsmönnunum á Hlemmi að kalla á konu sem sat á næsta bekk við mig. "Sá ég þig ekki í sjónvarpinu í gær?"
"Ha mig," svaraði konan, felmtri slegin.
"Já, varstu ekki að setja upp eitthvað leikrit?"
"Nei biddu fyrir þér, það hefur verið einhver annar."

Ég hvarf aftur inn í bókina. Skömmu seinna kom fimman, eins og áætlað var. Á stéttinni fyrir utan, meðan ég beið eftir að röðin á undan mér tíndist inn um harmónikkugættina, þá leit ég til baka í gegnum sjálfvirku glerhurðina. Einkennisklæddi eldri maðurinn hallaði sér upp að millivegg og gjóaði illskulega að mér augunum. Ég rétti úr mér og reyndi meðan ég horfðist í augu við hann að hrópa í hljóði með öllu mínu fasi: Ég er ungur maður sem er ánægður með sjálfan sig! Ég er stoltur af mínu ofurlitla andfélagslega frumhlaupi!

Svo steig ég upp í strætó og hélt til vinnu.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com