<$BlogRSDUrl$>

16 mars 2005


Hlemmraunasaga - fyrri hluti

Ég lenti í því í gærmorgun að sjálfvirku glerdyrnar á Hlemmi opnuðust ekki þegar ég gekk á þær. Óþolandi þegar nemarnir nema mann ekki hugsaði ég, veifaði stundarkorn höndum og gekk aftur á glerið. Þá tók ég nokkur skref aftur, leit í kringum mig og fékk samúðarfullt augnaráð frá undirleitum menntaskólastrák sem stóð glænæpulegur útundir vegg með öll einkenni þess að hafa lent í því sama og gefist upp.

Samúðarfullt eða ekki, það er eitthvað ósjálfrátt pínlegt við að lenda í svonalöguðu meðan horft er á mann. Og enn pínlegra að játa sig sigraðan og gefast upp. Svo ég gekk upp að dyrunum, reyndi árangurslaust að smeygja fingrum í falsið, og þegar ég leit inn í hlýjuna og sá fólkið sitja þar, upptekið af sjálfu sér, þá fann einhvern framandi fítonskraft renna á mig um leið og ég barði báðum hnefum kröftuglega í glerið. Gott ef ég öskraði ekki einhvern andskotann líka.

Dyrnar héldu áfram að láta sér standa á sama. Og gervallur heimurinn líka, fyrir utan renglulega menntaskólastrákinn sem fylgdist með af sívaxandi áhuga.

Ég get andskotakornið ekki gefist upp núna.

Svo ég gerði aðra tilraun til að smeygja fingrunum í falsið, og þegar ég fann það ganga betur en í fyrra skiptið glennti ég dyrnar í sundur, ýtti þeim alla leið aftur þangað sem þær áttu heima helvískar, og gekk inn í hlýjuna með sigurbros á vör. Ég leit við og horfðist í augu við mjóslegna táninginn um leið og hann læddist inn á eftir mér. Þú ert ekki með öllum mjalla, en ég er ánægður með þig, sá ég að hann hugsaði, um leið og hann strauk sultardropa úr nefinu.

Mig grunar að ég hafi verið með það sem er kallað mannaskítsglott á andlitinu.

Lýkur hér fyrri hluta Hlemmraunasögu.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com