<$BlogRSDUrl$>

11 mars 2005


Dave Allen dottinn frá blessaður karlinn, sé ég í fréttum. Ein af mínum fyrstu minningum hafði að gera með að sitja fyrir framan imbann og horfa á "karlinn í stólnum," eins og hann var kallaður í þá daga.

Kjallarinn er ógeðslegur - minnir í augnablikinu á þetta hér meistaraverk kvikmyndasögunnar, sem ég fór að sjá á miðnætursýningu í Borgarbíói í góðra vina hópi fyrir tæpum fimmtán árum.

Um tíma í gær leit tæpt út með norðurferðina, en það er allt komið á lygnan sjó í dag. Framundan er kyrrlát kvöldstund með sofandi mæðgur í farþegasætunum; ég einn með launhálum þjóðveginum (þótt líti vel út í augnablikinu) og gömlu Sundays- og R.E.M.-spólunum mínum í tækinu. Þær mixaði ég á sínum tíma, braut upp lagaröð af mikilli þrautseigju og þolinmæði þannig að aldrei skeikaði meira en nokkrum sekúndum með það að tónlistin fyllti teipið.

Sólin kom á loft á leið minni í vinnuna í morgun. Þetta gerist hratt þessa dagana - það eru ekki nema örfáar vikur síðan ekki var lesbjart á morgungöngunni yfir Vatnsmýrina frá strætóskýlinu við B.S.Í.

Vatnsmýrin var falleg í nöpru sólskininu í morgun. Og lyktarlaus. Oft liggur yfir henni megn stybba af flugvélabensíni; stundum berst hún inn um gluggana alla leið hingað inn að skrifborðinu mínu.

Í gærmorgun lyktaði Vatnsmýrin hins vegar af hráum, söxuðum lauk, einhverra hluta vegna.

Það er nú ekki það sem maður kallar ilminn af sigri í morgunsárið.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com