<$BlogRSDUrl$>

18 febrúar 2005


Í upphafi árs 1994 byrjaði ég í Háskólakórnum, eftir það sem mætti kalla stormasaman kafla í lífi mínu. Þar var fyrir, ásamt með fleirum vitaskuld, sú sem fimmtán mánuðum síðar átti eftir að verða kærastan mín. Og áfram þann veg til dagsins í dag, eiginkona og tveggja barna móðir.

Þetta er ekki sagan af okkur.

Því þar var einnig maður sem kallaðist Pétur Jón, fullu nafni Peter John Buchan, eða P.J. (framb. Pídjei). Kanadískur háskólanemi með tenórbarka úr gulli. Eins og hjartað (ooooh, en sætt). Hann náði mjög góðu valdi á íslenskunni og var farinn að tala hana reiprennandi hreimlaust þegar hann hvarf aftur af landi brott. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn aftur, síðast sumarið 2001, þegar hann hélt hér upp á þrítugsafmæli sitt með gömlum vinum. Við hjónin keyptum handa honum afmælisgjöf á sínum tíma, en fórumst á mis við hann og gjöfin hefur nú beðið uppi í hillu í hvað, þrjú og hálft ár.

Þangað til í fyrrakvöld. Þá hringir drengurinn í mig um kvöldmatarleytið meðan frúin er að vinna og lætur það uppi að hann sé á landinu, og muni taka þátt í Vetrarhátíðinni sem sett var í gær.

Takið eftir því hvernig hann er kynntur í hlekknum sem "vestur-íslenski tenórinn" Peter John Buchan.

Sem hann er. Hann er eins íslenskur og flatkökur með hangikjeti.

Hvað um það, hann lætur vita af því að hann sé að stefna saman nokkrum gömlum vinum að hittast á knæpu niðri í bæ seinna um kvöldið. Svo að sjálfsögðu reddaði ég pössun og dreif frúna aftur út um dyrnar þegar hún dröslaðist úrvinda inn um dyragættina.

Það voru ánægjulegir endurfundir, að sjá hann aftur. Og loks gátum við afhent honum gjöfina. Enn talar hann sprokið eins og hann hafi aldrei gert annað - til þess var tekið að hann var sá við borðið sem sletti minnst á framandi tungum.

Á sunnudaginn kemur sami félagsskapur saman aftur í eldhúsinu hjá okkur, í mjólkurgraut og súrt slátur, fyrrnefnt flatbrauð með hangikjeti, pönnukökur og kaffi.

Það verður glatt á hjalla.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com