<$BlogRSDUrl$>

08 febrúar 2005


Sumt fólk er loðið um lófana. Það má kannski segja um okkur hjónin þessa dagana, stund og stund, þegar heilu og hálfu millurnar flakka milli bankareikninga frá degi til dags í tengslum við íbúðakaup. En þegar moldviðrinu lýkur verðum við eflaust jafn krúkk og við vorum fyrir.

Hinu er ekki að neita að ég er loðinn um munninn. Þegar flensan lagði mig í kör fyrir þremur vikum var í upphafi heil vika sem maður hafði sig ekki einu sinni í sturtu nema á nokkurra daga fresti, hvað þá að maður nennti að raka sig. Svo kom í heimsókn ljósmyndari sem tók myndir af íbúðinni okkar til að setja á internetið. Og til að vera ekki alveg eins og tröll úr urð dregið varð ég nú aðeins að sjæna mig upp, en skildi eftir afahring um munninn og hökuna. Ég sór þess dýran eið að ég skyldi ekki raka hann af aftur fyrr en ég væri orðinn fullfrískur. Og hann er þarna enn.

Sú eldri sættir sig við hann, en finnst samt að ég ætti ekki að safna skeggi í alvörunni fyrr en ég verð afi.

Og kannski ég geri það bara. Skegg er gaman, ef maður nennir því.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com