<$BlogRSDUrl$>

07 febrúar 2005


Mætti á laugardaginn var á fyrstu kóræfinguna í hvað... þrjár vikur. Eða eitthvað. Var reyndar duglegur að æfa mig heima í veikindunum. En samt var ekki seinna vænna að fara að mæta, þar sem tónleikarnir verða nú á laugardaginn.

Og það ekkert smá.

Kórinn minn mun flytja, með Háskólakórnum, Diddú og undirleik, hið illflokkanlega og stórskemmtilega stykki African Sanctus, eftir David Fanshawe.

Fanshawe þessi ferðaðist vítt og breitt um vatnasvæði Nílar um og uppúr 1970 og safnaði upptökum af tónlistarflutningi innfæddra, jafnt træbal dönsum sem kyrjunum til bæna í moskunni í Kaíró. Svo samdi hann latneska messu kringum herlegheitin, þar sem kór og sópran syngjast á við orgínal upptökur af segulbandi (eða geisladiski, eins og þessi nýmóðins tækni er orðin í dag).

Tónskáldið mætir sjálft á staðinn fyrir helgina. Hann heldur tölu í upphafi tónleika og bregður upp litskyggnum af ferðum sínum (eða kannski verður hann með þær í svona nýmóðins kjöltutölvu, eins og er orðið svo algengt í dag). Svo sér hann sjálfur um píanósóló í einum kaflanum.

Það fyrsta sem ég heyrði af þessu verki var þegar tveir kaflar úr því voru fluttir á ólympíumótinu í kórsöng í Bremen í sumar sem leið. Ég heillaðist strax af því. Hrifningin minnkaði ekki við að taka þátt í að setja það upp.

Þetta stefnir í að verða alveg rosalegt.

Tónleikarnir verða tvennir, klukkan þrjú og sex, í Neskirkju á laugardaginn kemur, tólfta febrúar. Áhugasömum er bent á að missa ekki af Mósaík annað kvöld, þar sem sungið verður sýnishorn. Það gefur nokkra hugmynd um það hvernig þetta verður.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com