<$BlogRSDUrl$>

11 febrúar 2005


Ég var að spjalla við vinnufélaga minn um daginn um bóklestur Íslendinga. Hann hélt því fram að mörgum væri þannig farið að lesa ekki bækur af því að þeir snobbuðu um of fyrir bóklestri, þeim fyndist það svo göfug iðja.

"Neh," sagði ég. "Láttu ekki svona. Það er ekkert vit í þessu hjá þér."

Jú, hélt hann áfram. Og útskýrði að til væru þeir sem fyndist bóklestur verðskulda andakt: maður ætti ekki að lesa neitt annað en bókmenntir. Það væru bara plebbar sem læsu einhverja skitna kiljureyfara. Og þar sem saman færi þetta viðhorf og lítil löngun til að lesa "fínni bækur" væri útkoman sú að fólk af þessu tæinu læsi bara ekki neitt yfir höfuð.

"Heyrðu, jú þetta er sennilega rétt hjá þér," sagði ég, og var skyndilega kominn alfarið á hans band. Því allt í einu gerði ég mér ljóst að akkúrat úr þessari áttinni kæmi eflaust stór hluti af þeim hulduher sem gleypir í sig metsölubækur eins og Da Vinci lykilinn, Belladonnaskjalið, Dumasarfélagið og þess háttar (allar þessar "bókmenntalegu spennusögur"), en les annars ekki stafkrók þess fyrir utan. Þetta eru reyfarar, svo það er gaman að lesa þá. En um leið er hægt að telja sjálfum sér trú um að maður sé að lesa alvöru bókmenntir.

Hversu oft hef ég ekki heyrt þetta: "nei ég les voða lítið af bókum en ég las hana þarna davinsílykilinn."

Ég hef furðað mig dálítið á þessu. Því ólíklegasta fólk hefur leitað í rann okkar hjóna síðasta árið og spurt hvort við gætum ekki lánað því Da Vinci lykilinn (ágætis fólk í flesta staði, fyrir utan að vera með þeim ósköpum gert að fussa oní kjöltuna þegar talið berst að bóklestri). Og við svarað nei, við bara eigum hana ekki og höfum ekki lesið hana. "Nú," er þá horft á okkur stórum augum, "en þið eruð svo mikið bókafólk."

Oh, brother.

En nú skil ég loksins hvernig á þessu stendur. Og líður strax miklu betur.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com