<$BlogRSDUrl$>

28 febrúar 2005


Ég er með góðar fréttir, og ég er með slæmar fréttir.

Góðu tíðindin eru þau að kattarræksnið skilaði sér heim í gærkveldi, allt sundurbitið og tætingslegt eftir vikufjarvist. Hún er núna í aðgerð uppi á dýraspítala og við megum ná í hana síðdegis.

Það á ekki fyrir henni að liggja að vera útiköttur. Hún er bara ekki með það í spilunum.

Nóg um það í bili.

Vondu fréttirnar hafa að gera með Tónleika Ársins: Túvönsku ropsöngvagúrúarnir í Huun-Huur-Tu munu halda tónleika á Listahátíð fimmtánda og sextánda maí.

Sem er mikill fengur, svo hver eru eiginlega ótíðindin, skyldirðu spyrja?

Jú, ekki nema þau að þetta er um Hvítasunnuhelgina. Og þá helgi verð ég stökk norður á Akureyri í fermingarveislu.

Æ hvur grefillinn.

Ég er að vísu blessunarlega búinn að sjá þá á tónleikum einu sinni nú þegar. Og á kannski eftir að segja betur frá því seinna. En ef ég yrði í bænum um Hvítasunnuna myndi ég fara að sjá þá aftur: þetta er nokkuð sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Ég tók eftir að Dr. Gunni býður upp á lag með þeim á topp 5 listanum frá síðasta sunnudegi. Tékkið á því og hrífist.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com