<$BlogRSDUrl$>

11 janúar 2005


Það situr í mér dálítið sem ég sá í fréttum um daginn. Í tengslum við hörmungarnar við Indlandshaf.

Það er margt athyglisvert sem mætti skrifa um þessar hamfarir, um fréttaflutning af þeim og það hópefli meðal fólks víða um heim sem spratt af honum. En ég ætla að dvelja við annað, enda annað fólk búið að segja það sem mestu máli skiptir nú þegar, og sumt af því betur en ég myndi gera.

Í upphafi árs barst andlátsfrétt af Susan Sontag, bandarískum rithöfundi og samfélagsrýni. Ég veit nánast ekkert um hana, nema það sem ég las í grein um hana sem birtist í Lesbók Moggans af því tilefni. En mér sýnist sem ég ætti kannski að kynna mér sitthvað sem hún hafði að segja, sérstaklega um fréttaljósmyndun og túlkun. Ég held mér þætti það áhugavert. En þetta var nú hálfpartinn útúrdúr.

Það sem situr í mér er fréttamyndskeið sem birt var í fréttum RÚV (og eflaust víðar) undir lok síðustu viku, þegar bráðum tvær vikur voru liðnar frá jarðskjálftanum við Súmötru. Það sýndi flóðbylgjuna koma að landi, einhvers staðar við Tælandsstrendur, og úti á fjörunni sat maður (eða lá, man það ekki). Flóðbylgjan kom æðandi að, maðurinn stóð upp, og þegar hún var komin nánast alveg upp að honum sneri hann sér til lands og virtist reyna að hlaupa af stað. Nokkur skref, áður en hvítfyssandi veggurinn gleypti hann.

Við fengum að sjá þetta sýnt hægt. Með rauðum hring dregnum utan um manninn, svo ekki færi milli mála. Þulurinn sagði eitthvað í líkingu við það hvað þetta "sýndi þá ógnarkrafta" sem þarna væru á ferðinni. Hvort það var fréttnæmið við myndskeiðið veit ég ekki. Ég dreg það í efa. En það sem ég hugsaði í orðastað fréttamannsins var þetta:

"Sjáiði. Þarna er maður að deyja. Djöfull er þetta rosalegt maður."

Og mér fannst þetta rosalegt. Ég horfði á. En um leið fannst mér þetta eitthvað svo klámfengið: ég kom ekki auga á fréttina í þessu. Það var orðið svo langt um liðið frá þessum atburðum að ljósvakinn var þegar mettaður af myndum sem sýndu hafið ganga á land og eira engu á leið sinni. Fréttamyndir "núsins" sýndu þá eyðileggingu sem það skildi eftir sig, og hvernig gengi að koma hlutum í samt lag aftur. "Mannlegar áhugasögur" af "bræðrum okkar" frá öðrum vestrænum ríkjum.

Í fyrsta skipti sem ég sá myndir af flóðbylgjunni gapti ég í vantrú og furðu. Ég fékk ekki nóg: ég leitaði uppi myndir af henni, sat dolfallinn yfir eyðileggingunni og horfði. Leitaði mér upplýsinga um það hvaða kraftar væru að verki. Hvað hefði gerst. Svo fékk ég nóg af því. Eflaust var fleirum farið eins og mér, þegar "fréttin" var birt í síðustu viku. Ég hef orðið í gæsalöppum, því í huga mér var ekkert fréttnæmt við þetta myndskeið. Eini tilgangurinn með að sýna það var að leyfa alþjóð að horfa á mann deyja.

Ég var saddur. Ég fann ekkert bærast með mér, ekki óhug, ekki einu sinni samúð með manninum í rauða hringnum. Bara ógleði.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com