<$BlogRSDUrl$>

04 janúar 2005


Noh. Bara snjóflóð hjá frændfólki mínu í Kárdalstungu. Og rafstöðin ónýt.

Rafstöðin stendur niðri í Vaglagili, nokkuð upp með dalnum. Spurning hvort flóðið hafi komið úr austurhlíðinni, eða eitthvað farið af stað í gilinu sjálfu. Ég var oft í sveit í Kárdalstungu sem strákur, part og part úr sumri. Dvaldist þar oft með afa mínum og nafna, einmitt þegar verið var að reisa rafstöðina og leggja stokkana fyrir hana. Og svo var girðingavinna uppi á heiði. Mig minnir að Þolli frændi hafi verið með okkur líka. Eitt skiptið voru bremsurnar farnar úr Landróvernum svo ég varð að hlaupa á undan meðan jeppinn vældi ofan brekkurnar í fyrsta, til að opna afréttarhliðið í hlíðinni ofan við bæinn áður en Landróverinn stímaði á það. Svo varð ég að skottast heim sjálfur, síðasta spölinn.

Gott að enginn var í rafstöðinni þegar hún fór. Sjálft íbúðarhúsið er uppi á tungunni í miðjum dalnum, og jafnlítil hætta á ofanflóði og neðan-, þar sem það stendur.

Við fjölskyldan ætluðum að renna þarna frameftir á suðurleið eitthvert skiptið síðasta sumar, en þá svaraði ekki þegar við hringdum á undan okkur utan úr Húnaþingi. Árið þar áður rúntuðum við Vatnsdalshringinn í sömu erindagjörðum, en þá var heldur enginn heima. Vonandi hittist betur á ef við reynum í þriðja skiptið nú í ár.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com