<$BlogRSDUrl$>

06 janúar 2005


AFMÆLISGETRAUN!

Ég reif mig upp fyrir allar aldir í morgun (meðan allir aðrir á heimilinu voru enn í fastasvefni) og var kominn í vinnuna rétt upp úr sjö. Og þar var ég búinn að sitja, pikkandi við skjáinn í rúman klukkutíma, þegar ég gerði mér skyndilega grein fyrir því hvaða dagur er í dag. Sjötti janúar. Þrettándinn. Síðasti dagur jóla. Dagurinn sem piparkökuhús æsku minnar voru moluð í smátt og étin.

Ég er orðinn þremur árum betri en þrítugur.

Þegar ég sneri heim aftur um tíuleytið var ég leystur inn með ekki einni gjöf eða tveimur, ekki þremur, heldur fjórum gjöfum frá frú minni og dætrum, takk fyrir. Þar af tveimur sem sú eldri hafði pakkað inn upp á sitt eindæmi. Þarna var bindisnæla fyrir snyrtipinnann í mér, til þokkabótar skreytt í stíl við eyrnalokkana sem við feðginin gáfum frúnni í jólagjöf um daginn. Og þarna var ekki ein og ekki tvær, heldur þrjár bækur, þar af þær tvær sem ég átti eftir að festa mér af topp þrjú óskalistanum fyrir jólin: Sólskinsfólkið eftir Steinar Braga og Samkvæmisleikir eftir Braga Ólafsson. Auk þess fékk ég eina bók í viðbót, sem ég læt ekki uppi hver er um sinn, þar sem hún veitti mér hugmynd að getraun í tilefni dagsins (sjá neðst).

Svo var ég að fá böggul að norðan með póstinum (hann kom með afmælið til mín, til mín, til mííín), en ég opna hann ekki fyrr en ég verð kominn heim aftur á eftir. Auk alls þessa ákvað ég að gefa sjálfum mér tónlistargjöf: feitan pakka frá Amazon með My Bloody Valentine, 50ft Wave, The Blue Nile og Brian Wilson. Ég hlakka svo til.

Þá er loksins komið að getrauninni, sem er ekki aðeins haldin í tilefni af afmæli dagsins, heldur einnig fyrir það að í gær voru liðin akkúrat tvö ár síðan ég byrjaði að blogga. Hún er svona:

Hvað á Álaborg hin jóska skylt með skosku hálöndunum?

Spurt er um eitt einasta íslenskt orð, en lausnin telst ekki gild nema rökstuðningur fylgi. Veitt verða annað hvort tónlistar- eða bókaverðlaun (eftir samkomulagi) fyrir rétt svar.

(Sennilega er þetta alltof létt hjá mér.)
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com