<$BlogRSDUrl$>

13 desember 2004


Una dóttir mín datt niður stigann í gær. Ofan af efri hæð. Niður allar tólf tröppurnar. Alla leið.

Plink. Plonk. Plank.

Ég hef aldrei fengið jafnmikið áfall nokkru sinni á ævinni.

Ég var að klára að klæða hana Unu (17 mán) í náttfötin inni í stelpnaherbergi (þær byrjuðu að sofa saman í herbergi fyrir uþb viku síðan). Konan mín var niðri í eldhúsi að vaska upp eftir kvöldmatinn. Hrefna (4) kom upp stigann þegar jóladagatalið var búið í sjónvarpinu til að fara á klósettið. Hún opnaði hliðið fyrir stiganum, kom upp á skörina og lokaði því aftur á eftir sér. Krækti hakinu. Þegar ég var búinn að klæða Unu í náttfötin setti ég hana á gólfið og fór inn á baðherbergi til móts við næsta kvöldverk. Eins og svo oft áður. Í því sem ég bý mig undir það ("jæja ertu búin?") heyri ég skarkala utan af gangi.

Ég gægist fram og sé að Una hefur náð að lyfta króknum úr hakinu og vegur salt á loftskörinni. Hún styður sig óstyrkri hendi við hliðið sem löturhægt lætur undan og sveiflast út yfir stigann.

Ég hleyp til og öskra þegar ég sé hana steypast fram af. Hún veltur niður fjórar tröppur og rekst utan í blómapottinn með júkkunni (Yucca elephantipes) sem hefur smátt og smátt verið að veslast upp hjá okkur síðustu árin. Í smástund vona ég að það dugi til að stöðva fallið. Ég er fyrir miðjum stigaganginum og fórna höndum þegar ég sé að potturinn veltur af stað undan henni. Ég öskra aftur. Mold flæðir niður eftir öllu. Una heldur áfram að taka kollhnísa niður tröppurnar.

Plink. Plonk. Plank.

Það flæðir mold út um allt og dóttir mín veltur niður síðustu tröppurnar í faðmlögum við júkkuna. Tilsýndar er hún ekki nema aflvana tuskudúkka í klóm þyngdaraflsins.

Plink. Plonk. Plank.

Svo staðnæmist hún á stigapallinum fyrir neðan og liggur þar á grúfu, þögul og kyrr. Ég er kominn í efstu tröppurnar og öskra í þriðja skipti. Ég sé konuna mína koma hlaupandi utan úr eldhúsi og þrífa hreyfingarlausan búkinn upp í fang sér.

Þá byrjar stelpan að gráta. Aldrei nokkru sinni hef ég verið jafnfeginn að heyra barnsgrát.

Konan mín sest með stelpuna í stofusófann. Hún er útötuð í mold og volar með skeifu á munni og tár í augum. Það sést strax í þessum augum að hún er ómeidd - ótrúlegt en satt. Þetta er sami svipur og kemur á hana þegar hún dettur á rassinn við að príla upp á stól.

Ég veð moldina upp stigann aftur. Sú eldri situr enn á klósettinu: "búin." Ég segi henni hvað gerðist, reyni að vera eins yfirvegaður í rómnum og ég get, en hendurnar skjálfa meðan þær skeina. "Ja þetta var nú meira ævintýrið," leggur hún til málanna. Ég tek undir.

Svo koma þrif og skipti á náttfötum. Háttatími. Júkkan fer í ruslið. Ég lít til með stelpunni inni í rúmi annað veifið, allt þar til við hjónin skríðum sjálf í kojs seinna um kvöldið.

Hún svaf svo vært.
Það sem hún svaf vært.
by Hr. Pez

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com